Skírnir - 01.04.1987, Side 172
166
ÞÓRA KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
tveimur, sem Gerður keypti ásamt manni sínum, franska listmálaranum
Jean Leduc. Hjónaband þeirra stóð í 9 ár, frá 1960. Gerður er afkastamikil
á þessum árum, hún tekur þátt í fjölda sýninga víðs vegar um Evrópu og fær
góða dóma. Margvísleg verkefni fylgja í kjölfarið, svo sem veggskúlptúrar
og síðar steindir gluggar, bæði hér heima og í kirkjum Mið-Evrópu. Hér
heima hélt Gerður aðeins þrisvar sinnum sýningu á verkum sínum, - fyrst
árið 1952,. svo 1956, og síðast 1962, en hún átti nokkrum sinnum verk á
samsýningum íslenskra listamanna.
Gerður sigraði í samkeppninni um steindu gluggana í Skálholtskirkju,
sem efnt var til 1957, og er lýsingin á þeim ferli öllum býsna fróðleg í bók-
inni. Hún gerði samtals 24 glerrúður fyrir kirkjuna. Elín skýrir frá því, að
Gerður hafi látið fylgja skýringar á efni og táknum hvers glugga, auk tilvís-
ana í ritningagreinar og tileinkanir. Elín kemur þar á framfæri ósk um að
þessar skýringar verði gefnar út, þó ekki væri nemaí fjölriti til þess að liggja
frammi í kirkjunni fyrir þá, sem vilja notfæra sér þær við að skoða glugg-
ana. Því fari fjarri að rúðurnar séu einhverjar óhlutbundnar teikningar og
litaspil, eins og sumir virðist halda.
Gerður vann Skálholtsgluggana á verkstæði Oidtmannsfjölskyldunnar í
Linnich í Vestur-Þýskalandi, og upphófst þar með samstarf, sem reyndist
báðum aðilum frjótt og árangursríkt. Oidtmannsbræður unnu flesta
steindu glugga Gerðar þaðan í frá, svo og mósaikmyndir, og Gerður fékk
ýmis verkefni fyrir þeirra tilstilli, auk þess sem hennar var getið í listaverka-
bókum og gerðar um hana stuttar kvikmyndir í tengslum við verkstæðis-
vinnuna.
Elín lýsir þessum árum skilmerkilega. Hún byggir mikið á eigin bréfa-
skriftum, en einnig á bréfum milli feðginanna. Þar er sagt frá viðskiptum og
vináttu Gerðar við ýmsa samferðamenn, t. d. Hjálmar Bárðarson, sem fékk
áhuga á að ljósmynda verk hennar. Arangurinn varð lítil bók sem gefin var
út 1952, með texta Tómasar Guðmundssonar á íslensku, ensku og frönsku.
Kveri þessu var dreift hér heima og erlendis, og nýttist Gerði vel til kynn-
ingar. Þá er vitnað í bréfaskriftir sem Gerður átti við frænda sinn, Þorstein
Valdimarsson skáld, og minnst á ráðagerðir þeirra um að gefa saman út
bók, sem aldrei varð að veruleika. Einum kafla bókarinnar, er lýsir erfiðum
tíma í ævi Gerðar, ljær Elín yfirskriftina „Bitnar bruni á iljum“, ljóðlínu
eftir Þorstein úr kvæði til Gerðar.
Hins vegar reynir Elín hvorki að setja verk Gerðar í samhengi við það
sem var að gerast í listum á þessum tíma, né finna þeim stað í íslenskri lista-
sögu. Og litlu nær er lesandinn um störf vina hennar og samferðamanna, og
þá einkum um störf eiginmannsins. Þegar brestur kemur í hjónabandið,
dregur Elín taum Gerðar, og lesandinn fær litlar skýringar á því hvers
vegna Gerður, eftir skilnaðinn, endar feril sinn fjarri vinum og vanda-
mönnum helsjúk í útlendri sveit. Elín lætur lesandanum eftir að geta í eyð-
urnar. Hún einbeitir sér að því að draga upp sem skýrasta mynd af Gerði
sjálfri. Það er fróðlegt að kynnast áhuga hennar á heilsurækt, og hve mikið