Skírnir - 01.04.1987, Side 193
SKIRNIR
RITDÓMAR
187
an í eins konar brotasafn, sem vísar til fortíðarinnar en er þó fyrst og fremst
róttæk nútímaleg umsköpun (sbr. slagorð Pounds, „MAKE IT NEW“).
Hinir brotakenndu og stuttu kaflar Einars og flöktandi sjónarhorn hans
kynnu að virðast upplagður framsetningarmáti slíks brotasafns. Astæðan
fyrir því að slíkt brotasafn verður aldrei barn í brók er sú að höfundur er
líka, og kannski framar öllu, að hylla frásagnarWst hins arfbundna efnis.
Þetta á ekki aðeins við um Islendingasögurnar, heldur einnig þá frásagnar-
hefð sem felst í ýmiskonar munnmælasögum og þjóðsögum, ekki síst
draugasögum. 1 blaðaviðtali segir Einar um þær síðastnefndu að sú hefð
standi „nálægt okkur og er tákn um þá andlegu frjósemi, sem ég vil meina
að liggi í íslenskri menningu“. Hann bætir við: „Söðlasmiðurinn í sögunni
er lofgerð til frásagnarlistarinnar og er á sinn ýkta hátt lifandi dæmi um
sagnahefðina.“ (Morgunblaðið, 2. nóv. 1986.)
En hvernig á að skilja söðlasmiðinn sem slíka lofgerð? Varla nægja til
þess lýsingar af honum þar sem hann kneyfar mjöð og töfrar áheyrendur
sína á verkstæðinu með hetjusögum og hrakninga. Stórkarlalegu tilburð-
irnir á verkstæðinu eru ekki liður í neinni atburðarás og segja okkur þar að
auki ekkert um sögur söðlasmiðsins. Af þeim sögum heyrum við einnig
bara ávæning (sjá t.d. bls. 72-73, 88-89, 96-97). Þetta er í besta falli daufleg
vísun til frásagnararfsins, rétt eins og meira þurfi ekki til, hann kveiki þá í
okkur á sjálfsagðan hátt. En það er þó alls ekki skoðun Einars; honum er
einmitt í mun að endurheimta þennan arf á lifandi hátt. Söðlasmiðurinn
segir um frásagnarlistina:
Hversu gömul sem hún er og sama hvað á góma ber, þá er það að-
eins hún sem getur kallað aldirnar fram á sjónarsviðið og reitt þær
svo splúnkunýjar fram að forneskjan er ekki lengra í burtu en bara
næsta brauðbúð mjólkurbúð eða rakarastofa. (95)
Hann spyr jafnframt hvort það séu ekki „kerlingar af báðum kynjum
sem með bragðdaufu röfli frammíköllum og stælum reyna að eyðileggja
aliar góðar sögur?“ (29). Þannig ergist hann þegar einn trillukarlinn spyr
hann hvenær tiltekin saga gerist (90), því slíkt skiptir ekki máli fyrir hina
tímalausu frásagnarlist. Söðlasmiðurinn hneigist greinilega til sefjandi frá-
sagna sem hrífa hlustandann/lesandann með sér í ómótstæðilegri framrás
söguefnisins — það er sannfæringarmáttur sögunnar sem mestu skiptir og
við sjáum (96) hversu spenntir áheyrendur bíða eftir úrslitum sögunnar
(hér væri gaman að velta fyrir sér hvort til dæmis formgerð íslendingasagna
samræmist þessari hugmynd um frásagnararfinn, en það sýnist mér alls
ekki sjálfgefið).
Til þess að koma til skila þeirri „lifandi" lofgerð til frásagnarlistar sem
Einar talar um, verður að hrífa lesandann með í einhvers konar endursköp-
un frásagnarlistarinnar. Þetta gildir jafnvel þegar um íróníska eða skop-
stælda lofgerð frásagnarlistar er að ræða, eins og þegar Laxness skrifar