Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1990, Qupperneq 29
Trúarlíf íslendinga
Samkvæmt þessum tölum eru það tæplega 80% sem segjast vera trúaðir á
einhvern hátt. Þetta er nokkuð hærra hlutfall en raun varð á í könnun Hag-
vangs. Þá kváðust tæp 70% svarenda vera trúhneigðir. Taka ber fram að spurn-
ingarnar eru með ólíkum hætti í þessum tveimur könnunum. Annars vegar er
spurt um trú og hins vegar trúhneigð. Þá er gefinn kostur á fleiri og sveigjan-
legri svarsmöguleikum í þessari könnun, sem ekki skiptir minna máli.
Sérstaklega er ástæða til að benda á svarið ég er trúaður á minn eigin persónulega
hátt sem er það svar er flestir merkja við. Það er sennilegt að í hópi þeirra sé
að finna einhverja er ekki mundu telja sig trúhneigða, væri um það spurt. Hvað
sem því líður eru þessar niðurstöður einar sér býsna athyglisverðar. Það fer
ekki á milli mála að Islendingar eru, að eigin sögn, að miklum meiri hluta
trúaðir. Það hafa menn talið sig vita og kom reyndar berlega í ljós í könnun
Hagvangs, sem einnig leiddi í ljós að þeir væru „trúhneigðastir allra Norður-
landabúa“.7 En þessa trú, svo almenn sem hún reynist vera, er hreint ekki
auðvelt að skilgreina.
Innan við helmingur þeirra, sem segjast trúa, játa kristna trú. Hinir, meiri
hlutinn eða 42% af heildinni, telja að trú þeirra sé betur lýst með orðunum
„á minn eigin persónulega hátt“. Það liggur í hlutarins eðli að örðugt muni
reynast að verða margs vísari um þá trú sem þannig er lýst. Ymislegt verður þó
reynt að leiða í ljós um þessa trúarafstöðu þegar nánar verður litið á fylgni á
milli hennar og annarra trúarlegra þátta, sbr. það sem fyrr er sagt um trú á
Jesú, líf eftir dauðann og trúarafstöðu fólks.
Allur þorri manna skiptist í tvo nokkuð jafn stóra hópa: þá sem trúa á sinn
persónulega hátt og þá sem játa kristna trú, þ.e. 42% á móti 37%. Eru þá þeir,
sem merkja við báðar fullyrðingarnar, taldir meðal þeirra semjáta kristna trú.
Það er eftirtektarvert að tala þeirra sem játa kristna trú er sú sama og þeirra
erjáta trú á kærleiksríkan guð, er reyndust einnig vera 37%, sbr. töflu 11,3.
Þessi samsvörun eykur í sjálfu sér líkur á því að þessum niðurstöðum megi
treysta. Aður var bent á að svarsmöguleikinn „til er kærleiksríkur guð...“ svaraði
til klassískrar kristinnar guðshugmyndar. Það kemur því vel heim og saman
þegar jafn stór hluti manna merkir við hvort fyrir sig, kærleiksríkan guð og
kristna trú. Tekið skal fram að ekki er alltaf um að ræða sömu einstaklinga sem
fylla þessa tvo hópa þó að svo sé að töluverðum hluta, eins og sjá má í töflu 16
hér á eftír. En það eykur líkur á því að þessi sameiginlega niðurstaða, 37%, gefi
góða vísbendingu um fjölda þeirra sem segjast játa kristna trú og eru sjálfum
sér samkvæmir í svörum sínum. Því er forvitnilegt að leita frekari upplýsinga
um trú þeirra og bera þá um leið saman við meiri hlutann, þá sem segjast trúa
á sinn persónulega hátt án þess að játa kristna trú. Eftírfarandi tafla er sett upp
í þessu skyni.
7 Könnun á gildismati og mannlegum viðhorfum Iskndinga. Fyrstu niðurstöður. Hagvangur,
1984, bls. 35.
27