Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1990, Síða 177
VII. Trú og siðferði
Inngangur
} Löngum hefur verið haft fyrir satt að sterk tengsl megi rekja á milli trúarvið-
horfa og siðgæðishugmynda. Þau tengsl, eðli þeirra og umfang, eru með
margvíslegum hætti í fjölskrúði hinna ótal mörgu trúarbragða í sögu og sam-
tíð. En vandfundinn mun vera sá átrúnaður sem ekki hefur innan sinna
v trúarkenninga eða trúariðkana ívaf siðgæðisviðhorfa og siðferðisreglna. Hefur
franski heimspekingurinn og frumherji nútíma félagsfræði, Emile Durkheim,
gengið einna lengst í að reyna að sýna fram á hversu sterkt og órofa samband
sé á milli trúar og siðferðis. Kenning hans, sem heyrir til því sem kallað hefur
verið „fúnktionalismi" eða hlutverkakenning á íslensku, er sú að eitt megin-
hlutverk átrúnaðar sé að renna stoðum undir það kerfi siðferðisboða og
banna, sem hvert mannlegt samfélag hlyti að leggja til grundvallar tilveru sinni.
Durkheim dró þá ályktun að trúarviðhorf væru í reynd ýmist dulin eða ljós
siðgæðisviðhorf, hafin upp í æðraveldi.
Ekki eru allir á eitt sáttir um þessa kenningu Durkheims. Þeir sem hafna
henni sem altækri skýringu álíta að mun árangursríkara og nær sanni sé að líta
á trúarviðhorf sem þau séu í eðli sínu óháð eða sjálfstæð viðhorf, enda þótt það
sé mæta vel ljóst að margvísleg innbyrðis tengsl eru á milli trúarviðhorfa og
hins samfélagslega veruleika þar sem allt er lýtur að félagslegu taumhaldi
(social control) skipar veglegan sess, þar með talið siðferðiskerfið. Kunnur
málsvari þessa sjónarmiðs er breski trúarlífsfélagsfræðingurinn Bryan Wilson,
sem kveðst hallast að því sem hann nefnir „a substantive defmition of religion“
í stað „a functional definition“' . Með þessu er átt við að rétt sé fyrst að huga
að inntaki átrúnaðarins áður en spurt sé hvaða samfélagslegu hlutverki hann
hafi að gegna.
Hér mun ekki gerð frekari grein fyrir þessum ólíku kenningum en
mikilvægt er að hafa þær í huga þegar rætt verður hér á eftir um margvísleg
tengsl trúar og siðferðis. Er þessi könnun lögð til grundvallar og jafnframt
könnun Hagvangs, sem gefur fyllsta tilefni til að huga að sambandi siðferðis-
viðhorfa, trúarhugmynda, og ýmissa annarra samfélagslegra þátta. Hér mun
ekki tekin afstaða með annarri hvorri fyrrnefndra kenninga heldur litið svo á
að hvor tveggja kunni að koma að góðum notum.
1 Bryan Wilson: Religion in Sociological Perspective, Oxford/New York 1982, bls. 42.
175