Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Side 28
Bjöm Magnússon
athugasemd, og sumpart í þeim ritum Nýja testamentisins, sem yngri eru
en Pálsbréfin eða óháð þeim. Mun ég sérstaklega taka til athugunar í
næstu grein kristfræði Jóhannesarritanna, en minnast hér á nokkur önnur
atriði, sem taka að gera vart við sig.
Verður þá fyrst fyrir kenningin um meyjarfæðinguna svo nefndu. í
æskufrásögum Matteusar og Lúkasar kemur fram sú skoðun, sem skýring
á heitinu: sonur Guðs, að Jesús hafi engan mannlegan föður átt, heldur
verið getinn af heilögum anda (Mt. 1,18.20, Lk. 1,35). Biblíufræðingar
telja þessar frásögur vera af yngri rótum runnar en meginheimildir
guðspjallanna, og ekki er nein merki þessarar skoðunar að finna í
Markúsarguðspjalli, né heldur hjá Páli eða Jóhannesi. Ekki sjást heldur
nein merki um hana annars staðar í þessum guðspjöllum en í æsku-
frásögunum. Hliðstæðu þessarar kenningar má finna í ýmsum heiðnum
hugmyndum um syni guðanna, sérstaklega voru þjóðhöfðingjarnir taldir
meðal þeirra, eins og í egypskum trúarbrögðum og víðar. Nánari skyld-
leika má fínna í ritum Ffíós, (De cherubim, 48-52, cit. RGG. 1. 1605) og
í kenningu Páls, að ísak væri fæddur á andlegan hátt (Gal. 4,29). Gegn
þessari skoðun mælir auk hins framantalda það, að öll guðspjöllin tala
hiklaust um Jósef sem föður Jesú, og bæði Matteus og Lúkas rekja ætt
Jesú ekki til Maríu, heldur til Jósefs. Hér virðist helst vera að verki við-
leitni til að skýra guðssonarheitið út frá þekktum hugmyndum í umhverfi
kristindómsins á fyrstu áratugum hans. Það er byrjandi skýringarviðleitni
á „háspekilegu sambandi föðurins og sonarins” (Moffatt, bls. 137).
Þá má minna á það, að getið er um það að Jesús hafi stigið niður í
dauðraríkið til að prédika þar. Aðalstaðurinn fyrir þessu er í I. Péturs-
bréfi 3,19 og 4,6 en ef til vill má finna vott þessa í Efesusbréfi 4,9.
Ahrifaríkari er sú útfærsla á frásögunum um upprisu Jesú, sem í
prédikun fyrstu postulannna og Páls var eingöngu talað um sem birtingu
Jesú fyrir lærisveinunum eftir dauða hans, að hann hafi risið upp í hinum
sama líkama sem lagður var í gröfina, og því hafi gröfín verið tóm (Mk.
16 og hliðst.). Ekki er hægt að fullyrða neitt um það, hvenær þessi
kenning hafi orðið til, og víst er það, að hún kemur fram í frásögum allra
guðspjallanna af þessum atburði, og bendir það á, að hún hafi snemma
verið höfð fyrir satt. En vel getur hún verið tilraun til að skýra undur
upprisunnar fyrir þeim, sem ekki gátu hugsað sér líf öðruvísi en tengt við
hinn jarðneska líkama.
Náskyld þessari kenningu um upprisuna er hugmyndin um líkamlega
himnaför Jesú. Drög til hennar er að finna í Lúkasarguðspjall 24,50nn.
og í Postulasögunni 1,9.-11. Raunar er texti Lúkasar um þetta mjög óviss,
og því vafasamt, hvort í þeirri frásögn, sem þar er, hafi upprunalega
verið nokkur átylla fyrir því, að tala um líkamlega himnaför. En um það
leyti, sem þessi rit voru fullmótuð, virðist þessi hugmynd hafa verið
orðin all-skýr. Um uppruna hennar má eflaust segja svipað og hér hefur
verið sagt um upprisu jarðlíkamans, og séu þær báðar til orðnar í líkingu
við eldri sagnir um svipaða atburði.
26