Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Qupperneq 71
Sérkenni kristindómsins
er ekki gott, til þroska og byggingar skapgerðar sinnar. Siðferðilegur
góðleiki verður ekki skapaður, eins og strangi af efni sem hver maður
gæti sniðið sér af siðgæðisstakk til að skýla nekt sinni; ekki verður honum
heldur þröngvað inn í menn með valdi. Hann verður að vera ávöxtur
frelsis, því, eins og þegar hefur verið bent á, getur ekki verið um
siðferðilegan góðleik að ræða hjá gerfimanni.
„Og ef heimurinn er ekki eintóm blekking og leikaraskapur, hlýtur
valið að vera raunverulegt; hið illa hlýtur að vera raunverulegt, og verða
stöðugt valið.
„Þannig, og þannig aðeins, geta endanlegar verur leitt hið góða fram í
veruleikann, með höppum og glöppum, með mistökum og ávinningi. í
kyrrstæðri fullkomnun mundi ekki vera neitt frelsi og þar af leiðandi
enginn góðleiki. Þess vegna ríkir framþróunin í heiminum.” (bls. 64-65).
Það er í ljósi þessa skilnings, sem framþróunin verkar á eðli og
uppruna hins illa sem sami höfundur hefur sagt: „Ég játa, að ef ég hefði
lifað fyrir 100 árum, mundi mér hafa veist erfitt að trúa yfirleitt á góðan
Guð: heimurinn hlýtur að hafa litið út eins og dýki gjörráðrar grimmdar”
(bls. 35). Þannig hefur hin nýjasta heimsskoðun gert mönnum léttara að
átta sig á vandamáli hins illa, þótt vitanlega sé hér ekki um fullkomna
lausn að ræða.
En þótt vér þannig getum ekki svarað endanlega spurningunni um
uppruna hins illa, og þar með syndarinnar, þá getum vér þó rennt
nokkurn grun í hvernig syndin verkar í manninum, bæði einstaklingum
og mannfélagsheildinni. Og þá sjáum vér, að þó að vér sleppum öllum
bollaleggingum um fall Adams og erfðasynd þaðan runna, þá er þó
nokkur sannleikskjarni, sem bak við þær felst. Og hann er sá, að
maðurinn, er háður sínu lægra eðli, og það eðli hefur hann að erfðum
tekið frá forfeðrum sínum. I ljósi nútímaþekkingar í náttúrufræði getum
vér gjarnan sagt: frá forfeðrum sínum, dýrunum. Maðurinn er að vísu
skapaður í Guðs mynd, en hann er þó ekki enn orðin fullkomin ímynd
Guðs, sakir þess, að guðseðlið hefur ekki enn sigrað dýrseðlið. Þetta er sá
sannleikur, sem felst í kenningunni um upprunasyndina. „En enginn
ímyndar sér að kenningin um upprunasyndina (sönn eða röng) hvíli á
Genesis-sögunni. Hún hvílir á hinum tryggasta grundvelli — reynslunni”
(Mod. Chm. XXIV. 259). Sú reynsla hefur fylgt mannkyninu frá fyrstu,
gegnum Orphisma, sálma Gamla testamentisins, Pál, Ágústínus, Lúther og
allt til vorra daga. Og það er í fullu samræmi við það, sem sagt er hér að
framan um eðli syndarinnar, sem rangan vilja. „Þegar hugmyndin um
frumástand og fall kemur fram sem hugsun tengd hinni kristnu trú, þá
birtir „frum-ástandið” þann tilgang, sem hverjum manni er af Guði
gefinn, og „fallið”, að þótt syndin nái út fyrir einstaklinginn og sé málefni
heildarinnar, þá nemur það ekki brott eðli syndarinnar að vera viljasynd,
69