Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Side 81
Sérkenni kristindómsins
fagnaðarboðskapnum (Mk. 1,15), og er það af mörgum talið síðara
innskot, en jafnvel þótt svo væri ekki, gæti það ekki vegið á móti öllu
hinu. Þá er og á einum stað orðin: „sem á mig trúa” (Mt. 18,6), og eru
þau talin síðara innskot, en í sjálfu sér segja þau ekkert um það, að um sé
að ræða trú sem samþykki kenningar. Þessi krafa Jesú um skilyrðislaust
traust til Guðs var nýtt fyrirbrigði, þó „ekki sú hugsun, að maðurinn gæti
yfirleitt treyst Guði, heldur sú hugsun, að hann gæti borið óskorað traust
til hans, sem hvorki væri takmarkað af jarðneskum örðugleikum né
mótstöðu illra máttarvalda, traust þrátt fyrir skort allra verðleika, traust
til fyrirgefandi náðar Guðs” (Wendt bls. 286). „Heimur fornaldarinnar
var á valdi óttans” (E. Bevan: Hellenism and Christianity, bls. 84, cit.
Fairweather bls. 271).
En að hverju beinist þá þetta traust, sem Jesús nefnir trú? Fyrst og
fremst að Jesú sjálfum, og sérstaklega lækningamætti hans. Þannig er það
í báðum hinum tilfærðu dæmum, og mörgum fleiri (Mk. 2,5; 5,34, 36;
9,23n). Það kemur líka fram í því, að talað er um að kraftaverk geti ekki
gerst vegna lítillar trúar (Mk. 6,6; Mt. 17,20; 13,58). Þá er trúin traust til
Guðs, að hann muni uppfylla bænir manna og veita þeim mátt til að gera
kraftaverk (Mt. 21,21n =Mk. ll,22nn, Lk. 17,5, sbr. Lk. 18,1-8)
Traustið til Guðs skín líka út úr fjallræðunni, sérstaklega kaflanum, sem
varar við áhyggjum (Mt. 6,25-34), orðunum um bænina (Mt. 7,7.-11. Lk.
11,5.-13). Jesús talar hvergi um trúna sem skilyrði fyrir inngöngu í
guðsríkið, en raunar er það sama guðstraustið, sem skín út úr orðum eins
og um það að verða eins og börnin (Mt. 18,3n. Mk. 10,13nn) eða um
mustarðskornið og sæðið sem grær og vex (Mk. 4,30nn; 26nn sbr.
4,3nn), og í sæluboðuninni: „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er
himnaríki” (Mt. 5,3), því að fátæktin, sem þar ræðir um er einmitt
náskyld barnshugarfarinu og hinu einfalda guðstrausti. Enn mætti nefna
traust Jesú á mönnunum, sem skín svo fagurlega út úr mörgum
frásögnum um hann (Lk. 7,36nn; 19,lnn) eða ummælum hans (Lk. 15
o.v), en það er fyrir utan efni þessa kafla, er ræðir um trúna sem afstöðu
mannsins gagnvart Guði. En reyndar skín það út úr öllum þessum
dæmum, sem nefnd hafa verið um trúna sem traust samkvæmt kenningu
Jesú, að hvort sem hann talar um trú á sig eða lækningamátt sinn, eða það
er trú hans á mönnunum og hæfileikum þeirra að ganga inn í guðsríkið,
eða hann talar um að trúa á Guð, þá er það raunar eitt og hið sama: allt er
það traust til Guðs, hins himneska föður hans og allra manna, sem lætur
kraft sinn verka fyrir milligöngu hans eða annarra manna, og birtir
eitthvað af kærleikseðli sínu í hverjum manni, sem hann mætir. „Trú er
fyrir honum kraftur til að gera á ákveðnum augnablikum lífsins alvöru úr
sannfæringunni um almætti Guðs, er sú vissa, að maður muni á þessum
ákveðnu augnablikum virkilega reyna verkanir Guðs, er sú sannfæring,
að hinn fjarlægi Guð sé virkilega nálægur, ef maðurinn vill aðeins breyta
hinni venjulegu afstöðu sinni og er virkilega reiðubúinn að sjá hinn
nálæga Guð (Bultmann, 175).
79