Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Side 154
Bjöm Magnússon
föður, heldur er honum það hin æðsta nautn, „matur og drykkur”, eins og
Jesús komst eitt sinn að orði um það. „Vér getum aðeins verið
fullkomlega frjáls og fullkomlega „náttúrleg” í þátttöku vorri í hinum
líkamlegu nautnum, ef andi vor finnur sitt sanna heimkynni í hinu
yfirnáttúrlega” (Barry, bls. 193). „Það virðist vera lögmál á sviði
siðgæðisins, að því náttúrlega hættir við að verða ónáttúrleg, nema það sé
endurleyst af hinu yfirnáttúrlega” (ibid. bls. 59).
Þetta „fullkomna lögmál frelsisins” kemur glöggt í ljós í afstöðu
mannsins gagnvart böli og þjáningum. Hin eina leið tíl að láta ekki bugast
af hinu illa í heiminum, til að geta borið mótlætí og þjáningar, án þess að
þjást undir þeim sem kveljandi óréttlæti og böli, er að mæta þeim
samkvæmt hinu nýja mati á gildi allra hluta, ekki sem refsingu eða
ranglátri harðneskju ósveigjanlegra örlaga, heldur sem gjöf himneska
föðurins, þolraun, sem hann leggur fyrir mann, manndómsraun, er leiða
skuli í ljós það manngildi, sem hver hefur yfir að búa. Sá, sem það gerir,
stendur algjörlega frjáls gagnvart þeim, lætur ekki bugast, heldur andæfir
gegn þeim eftir því sem best er í eðli hans. Hugrekki og karlmennska í
raunum er eitt einkenni þeirra, sem hafa lært að samlaga vilja sinn
guðsviljanum, hreinleiki þeirrar sálar, sem treystir engu í fátækt sinni,
nema hinum alvalda kærleika Guðs.
Hin sama verður raunin í viðskiptunum gegn persónulegum
mótstöðumönnum. Orðin um að rísa ekki gegn meingerðamanninum,
heldur jafnvel gera gott umfram kröfur, þeim sem valda manni tjóni, eru
leiðbeining um það, hvernig menn geti verið frjálsir gagnvart slíkum
mönnum. Með því einu, að svara þeim af kærleika, eins og hinu besta í
oss er eiginlegt, hvernig sem þeir koma fram við oss, sýnum vér oss
alfrjáls í breytni vorri gagnvart þeim, og óháð breytni þeirra um vort
eigið andsvar. „Láttu ekki framkomu þína stjórnast af afstöðu hins
mannsins," sagði Jesús, þegar hann bað oss að snúa við hinni kinninni.
Láttu ekki verknað hans ákveða hvernig þú skalt breyta, vertu alltaf
knúinn af ósigrandi góðvild, hvað sem hann gerir. Láttu ákveðast innan
frá. Þú ert ekki þræll duttlunga annarra og viðhorfa þeirra” (Jones:
Christ of the Mount, bls. 151). Það er siðgæði innri yfirburða, sem
þannig svarar mótgerðum, siðgæði frelsisins á sviði persónulegra
viðskipta mannanna.
Það mætti nú ætla af hinu framansagða, að siðgæði frelsisins væri hið
auðveldasta í framkvæmd, þar sem það er ekki fólgið í öðru en því, að
láta hið sannasta og besta í sér njóta sín. En sá, sem svo kynni að hugsa,
hugsar ekki djúpt. Því að þetta er einmitt hið erfiðasta af öllu, fyrir
manninn, sem jafnframt því að vera barn himneska föðurins er þræll
syndarinnar. Það er svo erfitt, að það er ógerlegt manninum af eigin
styrkleika einum (Hér kemur til greina það, sem áður er sagt um hluttöku
náðar Guðs og verkanir anda hans í helgun mannsins). Þetta er það, sem
skilur kristindóminn frá trúlausum heimspekikerfum eða húmanisma.
Jesús var enginn veiklingur, sem lét undan kröfum hins lægra eðlis
mannsins eða ýtti undir værukærð og makindaþrá. Það eru fyllilega
152