Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Blaðsíða 181
Sérkenni kristindómsins
ríka skyldu til að sýna framkvæmd þess í verki, því annars á hún á hættu,
að spilla þeim góða málstað, sem henni er trúað fyrir.
Þess er líka skylt að geta, að mikið hefur verið unnið í þessa átt að
ýmsum kristilegum stofnunum og samtökum, ekki síst á síðustu áratugum.
Vaxandi skilningur fyrir því, að kristindómurinn hljóti að verka á
samfélag mannanna, og breyta því eftir hugsjón sinni, hefur hrundið af
stað ýmsum hreyfingum í þá átt. Eru sumar þeirra í beinu sambandi við
kirkjur landanna, sem einn þáttur starfsemi þeirra; má þar til nefna í
nágrannalöndum vorum sem hinar fremstu kirkjuherinn enska og Svenska
kyrkans diakonistyrelse. En margar hafa þær einnig verið án beins
sambands við hina almennu kirkju, svo sem hjálpræðisherinn, heima-
trúboðið o.fl. Þessi starfsemi hefur sýnt, að kristindómurinn hefur
stórkostlegt hlutverk að vinna í félagsmálum þjóðanna, enda þótt stundum
hafi einhliða trúarskoðanir spillt fyrir þessari starfsemi, þar sem
þröngsýnir sérflokkar hafa átt í hlut. En þeir hafa oft orðið á undan hinni
almennu kirkju að hefjast handa, og hefur það stundum orðið til að
torvelda hliðstæða guðsríkisboðun á almennum, kristilegum grundvelli.
Sem sérstaklega áhrifaríka má í þessu sambandi nefna starfsemi
Japanans Kagawa, sem hefur unnið stórkostlegt starf að endurbótum á
kjörum þeirra, sem verst voru staddir með þjóð hans. Allt er það knúið
fram af brennandi, kristilegum anda, og hversu honum er það ljóst, að
alhliða boðun fagnaðarerindisins haldist í hendur, sýnir guðsríkishreyfing
hans, sem hann hefur hrundið af stað um allan Japan, til að vinna að
alhliða kristnun allra stétta þjóðarinnar.
Hér eru ekki tök á að nefna fleiri slík dæmi, enda gerist þess ekki þörf.
Málið er augljóst, enda þótt stundum heyrist raddir um það, að kirkjan
eigi ekki að skipta sér af veraldlegum málum. Slíkar raddir hljóta alltaf
að vera sprottnar af misskilningi á eðli fagnaðarerindisins, og sú stefna
hlýtur alltaf að leiða til dauða fyrir alla sanna kristindómsboðun.
Kristindómnum er ekkert mannlegt óviðkomandi. Það hefur verið rakið í
einstökum atriðum hér að framan í þessu máli, hvernig guðsríkið felur í
sér umsköpun á félagslífi manna, bræðralag, þjónustu við sjúka,
bágstadda og snauða, og þetta allt ekki aðeins á þann hátt, að milda það
tjón, sem þegar er orðið, heldur miklu fremur að koma í veg fyrir, að
slíkt eigi sér stað, með því að berjast gegn því ástandi, sem skapar
mönnum slíkar nauðir. Það er sköpun guðsríkisins á meðal vor, sem er
hinsti tilgangur alls kristniboðs, og það verður ekki framkvæmt annan
veg en þann, að umbreyta hinu ytra fyrirkomulagi mannfélagsins.
Vitanlega verður sú breyting að vera róttæk, ná inn í hugarþel einstak-
linganna, því annars er hún haldlaus. En jafnskjótt og tveir eða þrír
einstaklingar hafa öðlast hugarfar guðsríkisins, þá er skylda þeirra að
berjast fyrir því að guðsríkið verði að veruleika. Þeir geta ekki annað.
Þörfin brennur inni í beinum þeirra, og þeir þola ekki annað en starfa.
Og það starf á að vera róttækt: Grípa á uppsprettu meinsemdanna. Bráð
hjálp til þeirra, sem í nauð eru reknir, er sjálfsögð, en hún knýr
jafnframt til starfa að því, að fyrirbyggja að aðrir lendi í sömu nauð.