Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Page 20
BERGUR JÓNSSON FRÁ KETILSSTÖÐUM
OG ÞORSTEINN SIGURÐSSON HÉRAÐSLÆKNIR EGILSSTÖÐUM
Eg man . . .
Þessi þáttur varð til með eftirfarandi hætti: Bergur á Ketilsstöðum átti sextugsafmæli 6.
apríl 1959. Við það tækifæri heimsótti hann fjöldi manns og fékk hinar bestu viðtökur sem
nærri má geta. Ræður voru fluttar svo sem viðeigandi þykir í afmælishófum. Bergur svaraði
og flutti þá þessar æskuminningar við mikinn fögnuð gesta, því að hann hafði afar næma
og notalega spauggreind. Þorsteinn læknir hlustaði á frásögn Bergs, sem náttúrlega var
munnleg, og skrifaði hana upp eftir minni þegar heim kom.
Eg er nú orðinn nokkuð gamall, þar sem eg er fæddur á öldinni sem
leið. Ekki man eg nú eftir þeim fáu mánuðum sem eg lifði af henni,
en það fyrsta sem eg man eftir mér mun vera á jólunum í gömlu
baðstofunni á Egilsstöðum, sérstaklega „stóru stofunni“, því þar var
gengið í kringum jólatréð.
Svo man eg eftir þegar verið var að byggja nýja húsið. Sérstaklega
man eg eftir manni sem hét Olsen, hann var norskur, hann fékkst við
að sprengja úr grunninum. Eg var afskaplega hræddur við þann mann,
því hann rak okkur krakkana svo oft í burtu þegar þurfti að sprengja.
Það fannst okkur óþarfi.
Svo voru það krossmessudagarnir, til þeirra hlakkaði maður mikið.
Það voru nú reyndar bæði sorgar- og gleðidagar. Þá fór það fólk sem
verið hafði hjá föður mínum, sumt kannske lengi, og aðrir nýir komu
í staðinn. Eg man að þá daga var eg ýmist inn á Kolli eða út á Klettum
og fylgdist vel með. Þarna kom það ríðandi og sólin glampaði á allavega
lit koffortin, rauð, gul og græn. Mér fannst að hér hlytu að fara miklir
menn, og hlytu að eiga miklar eignir, að eiga svona koffort. Það hlaut
að vera eitthvað í kistuhandraðanum. Þá voru menn ekki með seðla
eins og nú - nei, það voru allir með harða peninga.
Faðir minn verslaði þá á Egilsstöðum, og það komu margir til að
versla, og mér varð starsýnt á marga. Þá áttu konurnar ekki svona
fínar töskur eins og nú gerist til að geyma peningana í. Nei, þær höfðu
það öðruvísi. Þær geymdu þá í klúthorninu sínu og bundu kyrfilega
að og sneru svo upp á klútinn. Það var enginn hægðarleikur að komast
inn í þetta. Það þurfti að nota tennurnar, og þær voru notaðar óspart.
Eins voru buddurnar karlanna með ýmsu móti. Margar voru lélegar