Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Síða 28
26
MÚLAÞING
verið farið með meiri gát og forsjálni, en allt hefði það orðið á kostnað
ævintýranna.
Nú spyrst ég fyrir um bílferðir og mikið rétt, það fara tveir bílar
austur tiltekinn dag og ég fæ far.
Á tilsettum tíma kem ég á bifreiðastöðina með lítinn bakpoka og í
honum er náttkjóll, hárgreiða og líklega tannbursti, ef hann hefur þá
ekki gleymst. Engin voru þar regnföt né skjólflíkur af neinu tagi. En
hvað um það. í bílinn fer ég glöð og áhyggjulaus eins og allir farartálmar
væru nú úr vegi.
Og bíllinn rann af stað.
Fátt bar til tíðinda meðan ekið var austur Suðurlandsundirlendið. Margt
bar þó fagurt fyrir augu, en það er nú fyrir löngu viðurkennt að „landslag
yrði lítils virði ef það héti ekki neitt.“ Ég hef líka þá skoðun að það sé
fyrst og fremst fólkið, sem gefur landinu gildi, í áætlunarbílum kemst
maður varla í samband við neinn og flestir eru þar leiðinlegir.
Þegjandi og þumbaraleg hossuðumst við austur allar sveitir, en þegar
komið var austur undir Eyjafjöll þá áræddi ég að spyrja hvort nokkur
gæti bent mér á Paradísarhellinn. Jú, þar var einn, sem gat frætt mig
um hvar hellirinn væri, og hann lét á sér skilja að hann áliti mig mikla
fróðleiksmanneskju fyrst ég hefði heyrt talað um Paradísarhellinn.
Eftir þetta töluðum við dálítið saman. Því var þá þannig varið að það
var ekkert síður mér en öðrum að kenna að lítið var um samræður.
Loks var staðnæmst í Vík. Ég spurði bílstjórann hvað lengi yrði
tafið þarna. Hann rak upp stór augu og sagðist ekki fara lengra. Tveir
bílar hefðu lagt af stað austur, þessi hefði átt að fara í Vík, en hinn
að Klaustri og hann .væri farinn.
Nú stóð ég laglega í því. Engin áætlunarferð fyrr en eftir viku og
þá aðeins að Klaustri.
Engan þekkti ég þarna í Vík. En hvaða ástæða var til að æðrast.
Ég var hvorki stödd á eyðiey né uppi í óbyggðum. Nóg var að sjá og
skoða þar sem ég hafði aldrei komið áður. Fljótlega fann ég gistihús
og fékk þar inni. Herbergið, sem ég átti að sofa í, var inn af matsal
gistihússins. Þar svaf ég værum svefni alla nóttina, enda ekki á neinn
hátt í vanda stödd. Undarlegt þótti mér að þegar ég var komin á fætur
morguninn eftir, að stúlkurnar sem þarna unnu spurðu mig hver eftir
aðra hvort ég hefði nokkuð getað sofnað, og þær horfðu svo undarlega
á mig. Mér datt í hug að líklega hefði orðið einhver háreysti í matsalnum
um kvöldið eða nóttina. Hafi orðið slagsmál þarna þá röskuðu þau
ekki minni ró.