Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Blaðsíða 29
MÚLAÞING
27
Morgunninn var fagur og ég naut þess að ganga um þorpið og litast
um. Þegar ég kom inn beið mín indælis miðdagsverður og þá fyrst sá
ég forstöðukonu gistihússins. Hún hét Matthildur Gottsveinsdóttir.
Nokkrum árum áður hafði hún farið um sunnanverða Austfirði og
leiðbeint í garðrækt. Ég var þá ekki heima og hafði því aldrei séð
hana, en hún lét mig njóta sveitunga minna og tók mér með kostum
og kynjum, og öll fyrirgreiðsla, sem ég fékk þarna, kostaði mig ekkert.
Enn fer ég út og geng þá fram hjá þar sem tveir menn talast við. Mér
skildist á tali þeirra að bráðlega yrði ferð eitthvað austur á bóginn.
Ekki gaf ég mig á tal við þá, en snarast inn til Matthildar og segi henni
fréttirnar, sem vægast sagt voru hálf óljósar. Hún áttaði sig strax á
þessu og taldi víst að annar þessara manna væri Gísli á Búlandi í
Skaftártungu. Hann væri þar stundum á ferð á bílnum sínum og ekki
væri ómögulegt að ég gæti fengið far með honum. Hún vissi líka hvar
Gísli hefði bækistöð sína þegar hann kæmi til Víkur. Þangað fór ég
til þess að tala við hann. Og það var ekki að sökum að spyrja. Farið
var til reiðu og innan skamms sat ég við hliðina á Gísla á Búlandi á
leið austur yfir Mýrdalssand. Þetta var nú ögn skemmtilegra en í
áætlunarbílnum daginn áður. Gísli var ræðinn og sagði mér um lands-
lagið, örnefni og ýmislegt sem þar hafði gerst. Nú leið tíminn bara of
fljótt.
Þegar komið var austur að Flögu í Skaftártungu, sagði Gísli að best
væri fyrir mig að verða þar eftir því að þar væri ég í þjóðbraut ef
eitthvað kynni að rætast úr með ferðir, en Búland væri langt úr leið.
I Flögu bjó Vigfús Gunnarsson, en systur hans tvær höfðu verið
húsmæður í Papey. Hvoruga þeirra hafði ég séð, en fannst þær þó ekki
með öllu ókunnugar.
Auðvitað var það kona Vigfúsar, Sigríður Sveinsdóttir, sem tók á
móti mér af mesta skörungsskap, en hún átti ekki orð yfir hvað þetta
væri vitlaust ferðalag. Þeir sem legðu í svona ferð, ættu að athuga vel
sinn gang áður en lagt væri af stað, huga að póstferðum yfir sandana
og haga sér yfirleitt eins og menn með viti. Svo gaf hún mér gott kaffi.
Ekki hafði ég fyrr lokið úr bollanum en þar bar gesti að garði. Það
voru hjón neðan úr Álftaveri og hétu Jón Brynjólfsson og Sigurveig
Sigurðardóttir. Þau voru á leið austur að Maríubakka í Fljótshverfi.
Þar var dáinn gamall maður, sem þau ætluðu að fylgja til grafar. Þau
voru ríðandi og ef ég aðeins gæti fengið hest, þá væri þetta nú bærileg
samfylgd.
Svo stóð á að von var á Skaftfellingi til Víkur einhvern næsta dag