Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Page 49
MÚLAÞING
47
um haustið og er þar einnig greinileg lýsing á rústunum: tótt greind í
þrennt og í grennd voru tvö byrgi með sprekum, óhrunin rétt með
björgum í veggjum og hellisskúti með sauða- og hrossabeinum klofnum
til mergjar. Daginn eftir héldu þeir vestur yfir Jökulsá og norður í
Herðubreiðarlindir. 16. ágúst könnuðu þeir Herðubreiðarfjöll. Fundu
og nefndu Hrútsrandir í krikanum milli Eggerts og Kollóttudyngju.
Héldu í Grafarlönd um kvöldið. „Veður var gott um daginn og lék á
sunnan,“ segir J. S. Næsta dag héldu þeir norður fjöll og niður í
Reykjahlíð. Var þá sandrok en annars voru þeir heppnir með veður
í ferðinni. Sumarið var gott svo að gróður á öræfunum var með mesta
móti. Eftir þetta gengu Bárðdælingar oft suður að Gæsavötnum en
áður höfðu þeir ekki farið sunnar en á Marteinsflæðu.
Jón Sigurðsson á Gautlöndum skrifaði um ferð þeirra í Norðlingi
11. des. 1880. Telur hann ferð þeirra staðfesta að hinn forni Vatnajök-
ulsvegur sé fundinn og að hann megi teljast óhultur og greiðfær og
styttri en aðrar leiðir milli Norður-Múlasýslu og Suðurlands. Telur
hann sannað að lausríðandi menn geti farið á 4 dögum frá Brú að
Skriðufelli. Hann telur óhultara að fara norðan Tungnafellsjökuls í
Tómasarhaga, Eyvindarver og yfir Þjórsá hjá Sóleyjarhöfða heldur en
að fara um Vonarskarð. Ennfremur telur hann fullsannað að engar
útilegumannabyggðir séu til.
Víkur nú sögunni að rannsóknarferð Þorvaldar Thoroddsens sumarið
1884. Hann lagði upp frá Bárðardal 12. ágúst en hafði áður dvalist
mánaðartíma við rannsóknir á Mývatnsöræfum og m. a. komið í Öskju.
Með Þorvaldi voru Ögmundur Sigurðsson, sem var fylgdarmaður hans
í mörg sumur og Jón Þorkelsson, sem nú var fluttur frá Víðikeri að
Halldórsstöðum í Bárðardal. Fóru þeir svipaða leið og landaleitar-
mennirnir 1880 en gengu þó á Trölladyngju. Fóru ekki inn í Vonar-
skarð. Þann 16. ágúst voru þeir um kyrrt við Gæsavötn en gengu þó
á Gæsahnjúk. Daginn eftir fóru þeir austur yfir Dyngjuháls og komu
um kvöldið í Holuhraun. Gaf Þorvaldur því það nafn. Tjölduðu þeir
á jökulröndinni fyrir ofan hraunið, því þeir vildu ekki fara yfir Jökulsá
í myrkri. Þarna varð nóttin mjög ónotaleg og hestarnir skulfu um
morguninn enda voru þeir hungraðir. En þá var bjartviðri og von
bráðar kom mikil sólbráð. Þeirri stund lýsir Þorvaldur svo: „Hvergi er
ró. Sólin setur allt í hreyfingu. Allt er þetta svo óhreint og ljótt að því
verður ekki með orðum lýst, eintóm bleyta, for og sull.“ En Jökulsá
var vatnslítil um morguninn og riðu þeir hana í mörgum kvíslum, komu
um kvöldið í Hvannalindir og tjölduðu þar. Var hestunum orðið mál