Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Page 52
50
MULAÞING
um kvöldið að vörðum á Sprengisandsleið en að Eyvindarkofaveri kl.
hálf ellefu og áði þar um nóttina. Kl. hálf sex um morguninn lagði
hann af stað, fann Sóleyjarhöfðavað á Þjórsá þrátt fyrir þokulæðing.
Lítið vatn var í ánni. Þar fyrir vestan létti þokunni og kom sólskin.
Þarna hvíldi hann hestana rúma 6 tíma. Nú hélt hann að Dalsá en
þangað er löng leið. Þar steig hann af baki og hugðist búa sig til svefns
en þá rásuðu hestarnir af stað, svo hann varð að ganga á eftir þeim í
úrsvalri nóttinni suðvestur í Skúmstungur. Þangað kom hann kl. sex
um morguninn og náði að hvíla sig og sofna til kl. tvö um daginn.
Hann kom að Skriðufelli í Þjórsárdal kl. hálf sex um daginn og hafði
þá verið á ferðinni fjóra sólarhringa og níu klukkustundir milli bæja.
Fleiri ferðir verða ekki raktar hér um Vatnajökulsleið á þessari öld
en þó skal þess getið að Bergur Ólason frá Þingmúla í Skriðdal og
Þórarinn Ólafsson frá Melgraseyri við ísafjarðardjúp fóru gangandi
frá Jökuldal norðan Vatnajökuls, yfir Tungnafellsjökul, yfir suðurjaðar
Hofsjökuls og Langjökul miðjan, vestur að Kalmanstungu í Borgarfirði
sumarið 1944.
Víkjum við nú sögunni nærri þrjú hundruð ár aftur í tímann að
ferðalagi Árna Oddssonar sumarið 1618. Verður fyrst að gera grein
fyrir honum. Hann var elsti sonur Odds Einarssonar, sem var biskup
í Skálholti frá 1589 - 1630. Oddur biskup var stjórnsamur og þjóðræk-
inn kirkjuhöfðingi. Hann hóf fyrstur manna eftir siðaskipti söfnun
íslenskra handrita í fræðilegum tilgangi og hvatti menn til nýrrar sagna-
ritunar. Nú varð Herluf Daa höfuðsmaður konungs og honum þótti
biskup fara um of eigin leiðir í stjórn biskupsdæmisins og alls ekki
auðsveipur konungsvaldinu. Um eina ákæru höfuðsmanns mátti segja,
að hún hefði við rök að styðjast og hún var sú, að biskup hélt nokkuð
fram ættmennum sínum við embættaveitingar. I þessum deilum sendi
biskup Árna son sinn til Kaupmannahafnar til að flytja mál sitt fyrir
konungi. Árni vann sér mikið álit við málareksturinn. Hann hafði áður
stundað nám í Skálholti og við háskólann í Kaupmannahöfn. Var
málum biskups og höfuðsmanns vísað til Alþingis en þar áttu sendi-
menn konungs að rannsaka þau og dæma í þeim. En um heimferð
Árna hafa myndast miklar sagnir. Meðal annars á höfuðsmaður að
hafa keypt íslandskaupmenn til að synja Árna um far til landsins um
vorið. Komst Árni þó að síðustu með Vopnafjarðarskipi og í land þar
fjórum dögum fyrir þingbyrjun. Honum tókst að fá afburða gæðing til
ferðar og hélt hann einhesta yfir öræfin skemmstu leið sem hann kunni.
Munnmæli herma þó, að hann hafi haft hestaskipti á Jökuldal og fengið