Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Page 57
MÚLAÞING
55
Varð honum ekki þokað lengra en upp í miðjar brekkur. Synir
Emils, sem með okkur höfðu verið fram að þessu, sneru nú við með
hestinn. Nú brugðum við Bóas böndum á axlir og örkuðum af stað,
en við vorum ekki langt komnir, þegar við vorum orðnir lafmóðir og
farið að verkja í hnén.
Við sáum að með þessari aðferð kæmumst við aldrei upp á miðja
heiði, hvað þá lengra. Ófærðin var í sokkaband og sleðinn ýtti snjó á
undan sér. Við tókum því það ráð að ganga lausir, það sem taugarnar
náðu og draga svo áð okkur sleðann. Þetta var stór munur, þótt seint
gengi. Við vorum sammála um að tíminn skipti ekki máli, heldur að
okkur entist þrek á leiðarenda. Með þessu lagi náðum við á Hvalvörðu
í rökkurbyrjun, en þaðan og niður á Jóku rann sleðinn víða sjálfur og
gekk nú ferðin greiðlega. Við fórum svo út ána á ís og gátum þá
stundum hlaupið við fót. En þessi velgengni stóð ekki lengi. Þegar við
vorum komnir út á móts við Þórudalsmynni var áin auð með blettum
og því ófær með æki. Nú var úr vöndu að ráða. Við vorum komnir
langt út fyrir þá staði, þar sem sæmilegt var upp úr gilinu og því
fyrirkvíðanlegt að snúa við. Við tókum það ráð að reyna að komast
þarna upp. Gilið er þarna um 50 m djúpt og snarbratt svo það var
ekki árennilegt. Þarna hjá var skafl alveg frá brún og niður úr. Við
gerðum okkur för í snjóinn og fórum báðir upp eins langt og taugarnar
náðu og drógum síðan að okkur eins og á heiðinni. Annar sat og hélt
við, svo ekki rynni til baka á meðan hinn fór upp og hélt við. En þótt
ækið væri þungt tókst okkur þó að hala það að okkur, þótt litlu munaði
stundum. En það voru kátir strákar, sem loksins komust með ækið
niður að Arnhólsstöðum, þar sem við fengum hinar ágætustu viðtökur
og síðan fylgd yfir að Mýrum. Þangað var komið klukkan 10 um
kvöldið, eftir 15 tíma ferð.
Bóas var nokkuð kalinn eftir ferðina, en þó ekki til stórskaða - en
eyrun duttu af öllum svínunum sökum kals.