Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Side 60
58
MULAÞING
heilsar okkur og spyr um okkar ferðalag. Við segjum honum að við
séum á ieiðinni út að Eiðum og ætlum að komast þangað í kvöld. Mér
er í fersku minni viðbrögð Péturs þegar hann hafði hlustað á ferðaá-
ætlun okkar. Þessi stóri og myndarlegi maður lagði handleggi yfir herð-
ar okkar bræðra og sagði: „Nei drengir mínir, þið farið ekki lengra í
kvöld. Nú komið þið inn með mér og gistið hjá mér í nótt,“ og bætti
síðan við: „Borgarfjarðarpóstur gistir hér á Egilsstöðum, og eg ætla
að biðja hann að lofa ykkur að verða sér samferða á morgun út að
Eiðum.“
Að því búnu fór hann með okkur inn til konu sinnar, Elínar Ólafs-
dóttur. Hann sagðist hafa verið svo heppinn að ná þessum ungu mönn-
um í útidyrunum, hefði stöðvað þá og boðið þeim gistingu. Hann sagði
það alveg fráleitt að leggja á snjóauðnina í náttmyrkri. Elín tók okkur
af mikilli gestrisni eins og hennar var von og vísa, lét okkur fara úr
blautum plöggum sem hún þurrkaði, og við borðuðum indælan
kvöldmat.
Síðan settust hjónin niður og spiluðu við okkur fram eftir kvöldi.
Morguninn eftir var bjart veður en kóf og nokkuð mikið frost. Pétur
var snemma á fótum eins og hans var vani. Eftir rausnarlegar veitingar
kvöddum við Elínu og þökkuðum henni fyrir frábærar móttökur og
gengum síðan út á hlað með Pétri. Það stóð heima, þegar við komum
út var pósturinn að búast til ferðar. Kvöddum við nú Pétur og þökkuð-
um fyrir okkur. „Ekkert að þakka, ekkert að þakka“ sagði hann.
Síðan lögðum við af stað, gengum í slóð póstsins og vorum lengi á
leiðinni út að Eiðum. Var okkur hugsað til þess hvernig okkur hefði
reitt af að ráfa þessa leið í náttmyrkri og leiðindafæri kvöldið áður.
Við fórum strax inn til Jakobs Kristinssonar, heilsuðum honum og
báðumst afsökunar á hvað við kæmum seint. Hann sagðist hafa verið
orðinn hálfhræddur um okkur í þessari slæmu veðráttu. Þeir Hóseas
og Einar fóru nokkrum dögum fyrr, voru ekki tepptir við heimaverk
eins og við Björn og er áður getið.
Alltaf þegar eg hef leitt hugann að þessari ferð, eru mér efst í huga
þakkir til þeirra Egilsstaðahjóna, Péturs og Elínar. Þau hjón eignuðust
fjögur myndarleg og mannvænleg börn. Elstur er Jón dýralæknir, harð-
duglegur maður og frábær dýralæknir. Ólafur lést af slysförum á unga
aldri, mesta mannsefni. Margrét býr á Egilsstöðum og Áslaug í Reykja-
vík. Öll eru systkinin sem lifa gift og eiga myndarlega afkomendur.