Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Síða 76
74
MÚLAÞING
Jófríður var dóttir hjóna í Skriðdal, á Borg þar í sveit 1779. Magnús
Guðmundsson hét faðir hennar og móðir Ingibjörg Jónsdóttir. Þau
hjón áttu fimm börn saman og var Jófríður næstelst. Magnús á Borg
dó 1780 eða 1781 stendur í Ættunum, og er Jófríður þá 16 ára eða þar
um bil. Magnús átti einnig Eirík bónda á Víðilæk og Haugum í Skriðdal,
f. um 1747, fyrir hjónaband.
Sigmundur fullyrðir að Jófríður hafi verið niðursetningur á Ormars-
stöðum hjá Bessa og Málmfríði, en í Ættunum er hún sögð vinnukona.
Það er líklegra, því að 1779 er hún heima á Borg 15 ára, ári eða tveimur
áður en faðir hennar deyr, og hún fer varla strax þá-í Ormarsstaði,
því að 1782 er hún með móður sinni og yngrí systkinum á Hryggstekk
í Skriðdal. Þá er hún 17 ára, Guðbjörg 12 ára, Magnús 6 ára og
Guðbrandur yngstur eins og hálfs árs. Jón elsti bróðir þeirra er þar
ekki og er talið í Ættunum að hann hafi látist ungur. Mjög líklegt er
að fjölskyldan hafi þurft á sveitarstyrk að halda eftir að húsbóndinn
og ef til vill elsti sonurinn voru fallnir frá. I elstu hreppsbók Skriðdals-
hrepps (1788 - 1819) er Guðbrandur í upphafi bókarinnar sveitarómagi
í Eyrarteigi í Skriðdal.
Sóknarmannatöl Þingmúla vantar frá árunum 1783 og 1784, en 1785
eru Ingibjörg og börn hennar horfin úr tali. Elsta sóknarmannatal
Ássóknar hefst ekki fyrr en 1825 og sést því ekki í þessum tveimur
tölum hvenær Jófríður hefur farið í Ormarsstaði, en líklegt að það
hafi verið 1783 eða 1784.
Ekkert að undanskilinni staðhæfingu Sigmundar Long bendir til að
Jófríður hafi verið niðurseta á Ormarsstöðum og er harla ólíklegt um
nær tvítuga stúlku, sem tekur sér slíkt fyrir hendur sem í þættinum er
greint frá, enda lýsir Sigmundur henni svo:
„Var frá náttúrunnar hendi efnisstúlka, en mögur og illa haldin eins
og oft átti sér stað um niðursetur á þeim árum og lengi eftir. “
Hér virðist mega lesa milli lína að Jófríður hafi mátt þola skort
vegna nirfilsháttar Bessa. Slíkt er hugsanlegt og ekki sæmir nútíma-
mönnum að rengja hina eldri sem þetta fyrirbæri þekktu. Þó gat annað
komið til en níska. Það er ljóst, m. a. af riti Þorvalds Thoroddsens
Árferði á íslandi (Kh. 1916 - 1917) að lífskjör hafa oft verið með
ódæmum síðasta fjórðung 18. aldar sökum harðinda, náttúruhamfara
og sóttafars. Verstu árin voru áreiðanlega slík að stutt gat orðið í
matföngum á Ormarsstöðum, enda þótt þar byggi Bessi auðgi. Menn
eta ekki ríkisdali og ekki heldur 20 hundraða jörð ef búskapur bregst
svo að matföng þrýtur.