Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Qupperneq 46
44
MÚLAÞING
nafni. Þar átti hann heima nærri því óslitið til síns skapadægurs 7. nóv-
ember 1927.
Magnús var meðalmaður á vöxt, fremur breiðleitur, bláeygur og lítið
eitt freknóttur. Hann var alvörumaður, en þó skemmtilega kíminn,
trygglyndur og vinfastur og hinn besti drengur.
Einn var sá þáttur í eðli Magnúsar, að hann var draumspakur og virtist
sjá og skynja ýmsa þá hluti, sem öðrum voru huldir.
Síðari hluta barnsáranna ólst Magnús upp í Austdal, næsta bæ utan eða
austan við Þórarinsstaði, hjá merkishjónunum Oddi Sigfússyni bónda
þar og búfræðingi og Þórunni Sigmundsdóttur konu hans, orðlagðri
gæðakonu.
Magnús var í Austdal til vorsins 1915 að hann flutti að Þórarinsstöð-
um, þá á seytjánda ári.
í Austdal var mikið lesið á kvöldvökum á þeim árum og rímur kveðn-
ar.
Var það Oddur bóndi sem las og kvað.
Engum ungum manni hef ég kynnst, sem kunni jafnmikið af rímum og
ævintýrum og Magnús. Hann var hagmæltur vel og kunni manna best að
segja frá. Ég hafði mikið yndi af því að heyra hann kveða rímur og segja
ævintýri, enda sóttist ég eftir að vera í návist hans. Var hann mér ætíð
hlýr og góður.
Dulsýn Magnúsar
Hinn 7. nóvember árið 1926, vorum við Magnús að dreifa sauðataði á
völl skammt frá “Heimafjárhúsum” á Þórarinsstöðum. Þennan dag var
kalsaveður og gekk á með svo miklum regndembum að við urðum að
leita skjóls í fjárhúsunum á meðan verstu hryðjurnar stóðu yfir.
Við höfðum dvalið litla stund í fjárhúsunum, þegar Magnús lítur út um
dyrnar og segir:
,,Ekki kemur Oddur enn.“
Ég vissi að hann mundi eiga við Odd bónda í Austdal, en sá bær er
ekki langt frá, eða um þriggja kvarttíma lestargang utan (austan) við
Þórarinsstaðabæinn.
,,Áttu von á Oddi í þessu veðri?“spyr ég.
,,Já, ég sá hann áðan og þá var hann nærri kominn að Pyttagilinu og
stefndi hingað.“ Pyttagilið er í túninu á milli bæjarins og fjárhússins,
sem við vorum í, skammt utan við þau. Við fórum því þegar út til þess
að svipast um eftir Oddi, en hann sást hvergi.