Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Blaðsíða 47
MÚLAÞING
45
,,Þér hefur laglega missýnst í þetta skipti,“ sagði ég.
,,Nei,“ svarar Magnús. ,,Ég sá hann mjög greinilega og ég get sagt
þér hvernig hann var búinn. Hann var í móröndóttu fötunum og með
svarta hattinn, sokkana girta utan yfir buxurnar. Hann var með staf í
hendi og dökka trefilinn með ljósu röndunum um hálsinn. Ég ætti nú lík-
lega að þekkja hann Odd á ekki lengra færi.“
,,Jæja, þá hlýtur hann að hafa snúið við og farið inn í bæinn,“ sagði ég.
Litlu seinna vorum við kallaðir heim til hádegisverðar. Kom þá í ljós,
að enginn á bænum hafði orðið var við Odd. Sagði Sigurður fóstri minn
að ekki kæmi til neinna mála, að Oddur hefði farið þar um hlaðið án
þess að gera vart við sig. Enda reyndist það svo, Oddur hafði verið
heima í Austdal þann dag allan.
Um kvöldið kom kona frá Hátúni, smábýli innan við Þórarinsstaði.
Var erindi hennar að biðja um að maður yrði sendur eftir Oddi í Austdal
til þess að líta á kú, sem veikst hafði skyndilega. En Oddur var búfræð-
ingur og laginn mjög við allar skepnur. Varð það úr að Magnús valdist
til fararinnar.
Það rigndi enn, þó ekki eins og fyrr um daginn. Nú voru ekki lengur
þessar stóru regndembur, svo sem áður er getið og komið logn.
Oddur kom við á Þórarinsstöðum á leið sinni inn í Hátún. Þegar hann
hafði heilsað heimilisfólkinu, bað hann fóstra minn um að Magnús fengi
að koma með sér inn í Hátún. Það var velkomið. Þegar við Magnús stóð-
um þarna báðir á stofugólfinu skammt frá Oddi, hnippir hann í mig og
segir:
„Hvernig sýnist þér hann búinn?“
Einkennilegt þótti mér, að Oddur var að öllu nákvæmlega eins klædd-
ur og Magnús hafði lýst fyrr um daginn.
Magnús hélt áfram með Oddi inn að Hátúni. Þar lá tík á hvolpum.
Leist Magnúsi sérlega vel á einn þeirra, tík með tíu svörtum deplum
um skrokkinn, annars hvít. Falaði hann hvolpinn og nefndi Tíu og tók
við hana miklu ástfóstri.
Vorið eftir fór Magnús frá Þórarinsstöðum og bjó með foreldrum sín-
um og systkinum á jörðinni Minni-Dölum í Mjóafirði, en þá jörð hafði
hann keypt vorið 1922, mest vegna foreldra sinna og systkina til búsetu.
Ástæðan fyrir því að Magnús fór til Minni-Dala var sú að Jóhann
bróðir hans, sem veitti búinu forstöðu, fór þetta vor að Meðalfelli í Kjós.
Hann langaði til að kynnast góðbúskap í öðrum landshluta og hugðist
koma aftur heim um haustið. Húsbóndi hans þetta sumar var stórbónd-
inn Eggert Finnsson (fæddur 1852, dáinn 1946). Hann hafði numið bú-