Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Page 88
86
MÚLAÞING
hvenær messað var og eins ef messufall varð og hvers vegna. En við
lestur bókanna er lesandinn næsta ófróður um hvaða boðskapur eða hug-
vekja var flutt úr prédikunarstólnum.
Dagbækurnar eru fáorðar um veru hans á Ríp og í Saurbæ. Samt er því
lýst með hverjum harmkvælum Málmfríður Anna, fyrri kona hans, ól
Helgu og því að hún dó af barnsförum er hún átti yngri dótturina sem
varð aðeins misserisgömul. En sorgin fær ekki útrás á dagbókarblöðun-
um.
I Svalbarð var afi kominn 14. júní 1876. Þar var hann í tólf ár sem
munu um flest hafa verið hin erfiðustu á prestsferli hans. Það var ærin
þolraun að hendast um allan Þistilfjörð og meginhluta Sléttu, meðan
hann þjónaði líka Presthólaprestakalli, og hin síðari ár var hann einnig
prófastur í Norður-Þingeyjarsýslu. En hann hafði ekki lengi setið á Sval-
barði þegar hann gekk að eiga Þórhildi Sigurðardóttur frá Harðbak á
Sléttu, 1877. Sá ráðahagur létti honum mjög fyrra mótlæti og gerði hon-
um auðveldara að takast á við erfiðleikana sem flestir stöfuðu af illu ár-
ferði. I brúðkaupsveislunni voru um 30 manns og hún kostaði ca 75 kr.
“Omnes ad noctis quartam horam cantu, bibendo, saltando delectantur et
post de his nuptis laudem offerebant.” Sem mætti þýða: “Allir skemmtu
sér fram yfir óttu við söng, sumbl og dans og héldu glaðir til síns
heima.”
Níundi áratugurinn var sá harðasti á öldinni sem leið og allt til þessa
dags. Það er hrollvekjandi að lesa um þær frosthörkur, hafís og snjóalög
sem gengu þá yfir Norðurland og teygðust til annarra landshluta. Hörk-
urnar byrjuðu eftir áramót 1881 og hinn tuttugasta og níunda janúar
skrifar afi: “Blindhríð allan daginn og mikill fannburður og aftakafrost,
ekki komist á beitarhúsin...” A góu og í byrjun einmánaðar komst frostið
niður í 30 gráður á Reamur sem mælir minna frost og minni hita en
Celsius. “Hríðareima og jafnvel enn meira frost. Og enn herti veðrið.
Norðvestanofsaveður með afar miklum kófrenningi og éljaáhrinum og
einhver hinn mesti aftaksbruni sem komið hafði á vetrinum... Lóga varð
bæði fé og kúm á mörgum bæjum vegna heyleysis. Fjörðurinn fullur af
ís.” Svo skrifar klerkurinn á Svalbarði um harðindin. Raunverulega felst
í orðum hans saga heillar þjóðar á bágindatímum. Öll vor voru hörð,
segir í frægu skáldverki en hörkurnar gátu teygst fram á sumar. Á
hreppamóti á Svalbarði í júní 1886 var svo knappt þar í búi að til miðaft-
ans var ekkert til á prestssetrinu að eta handa gestum hvað þá verka-
mönnum. Tíðarfarið var eins og um hávetur. Enda segir í dagbók:
“Hræðilegustu horfur og angist í öllum út af fjárhöldunum og þessu ó-