Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Side 111
MÚLAÞING
109
manns hennar, en þau settust að þar er þau komu úr Papey, og Mekkín,
yngri systir Valgerðar, var hjá þeim fyrst um sinn uns hún giftist og
fluttist í Veturhús 1902. Einnig voru systkini mín, þau Þorbjörn og Sól-
veig, hjá þeim hjónum, fluttust með þeim þangað. Sólveig var búin að
vera lasin, gróf út frá tönn og reyndi ég að hressa hana með því að segja
henni ferðasöguna, að ég hefði verið bundin í söðlinum og að við hefð-
um farið í rauðarokinu.
Það var orðið áliðið hausts, mér var ekki treystandi að fara til baka og
það var afráðið að ég yrði um kyrrt hjá Valgerði um veturinn. Fannst
mér þetta ágætt því mér þótti alltaf svo vænt um Valgerði en fannst Sig-
urður frekar draga taum Sólveigar. Eitt sinn var verið að rúlla tau og sát-
um við báðar á koffortinu en þar mátti ekki vera nema önnur og varð ég
að víkja, en þetta var ósköp eðlilegt því Sólveig var búin að vera svo
mikið lasin um sumarið.
Vorið eftir kom mamma í Hamarssel með öll börnin og tók við búinu
en hún var ekki undirbúin með það því þetta var svo margt fólk og fór
það alveg með efnahag hennar, en hún átti Hlíð í Lóni og parta úr Reyð-
ará og Bæ. Hlíð var seld fyrir allt of lágt verð en um hina partana er mér
ekki kunnugt.
Síðan er ég á mömmu vegum í 3 ár.
Á Hálsi
Mekkín hálfsystir mín flutti frá Veturhúsum að Hálsi og bað hún
mömmu um að fá mig til sín til að gæta barnanna, en þau voru tvö, Stef-
anía og Eiríkur, hann á fyrsta ári. Þegar fólkið var á engjum átti ég að
laga kaffið og kalla á fólkið sem úti var. Þetta sumar voru flakkarar á
ferðinni og var ég mjög hrædd um að þeir myndu koma á meðan ég væri
ein heima. Svo heppilega vildi til eitt sinn er fólkið var nýsest við kaffi-
borðið að það var bankað. Þar voru komnir flakkarar og gaf Þorvaldur,
húsbóndinn, þeim aura svo þeir fóru.
Það voru tvær kýr og eitt naut í fjósi, og sá ég um að mjólka þær á
morgnana, rak ég þær síðan í haga og mokaði flórinn, en að því loknu
fór ég heim með föturnar. A kvöldin mjólkaði hálfsystir mín aðra kúna.
Einn morguninn, þegar ég kom í fjósið, var nautið laust og ég varð
dauðhrædd, hljóp heim og sagði fólkinu það, en mér var sagt að fara aft-
ur, setja hurðina fyrir mig og hleypa tudda út. Gerði ég þetta, hljóp síðan
inn í fjósið og kláraði að mjólka, en tuddi hamaðist úti á meðan. Hafði
ég stóra hríslu með mér til að verjast þegar ég fór með kýrnar.