Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Síða 112
110
MÚLAÞING
Um vorið, þegar ég kom að Hálsi, var ég látin sitja yfir ánum niðri í
mýri, en þær voru komnar að burði. Einu sinni sem oftar fór ég heim að
borða, en þorði nú ekki að borða inni, heldur borðaði ég grautinn úti á
hlaði til að fylgjast með ánum. Þegar mér var litið við sá ég að þær voru
teknar á rás í burtu en þá var Þorbjörn bróðir minn sendur af stað til að
fara fyrir þær. Mörg tárin átti ég undir klettinum í mýrinni, því mér
leiddist svo að sitja yfir ánum, þær voru svo óþekkar, en þetta vissi eng-
inn um. Þetta mun hafa verið árið 1905 og ég á ellefta ári.
Um haustið, er karlmennirnir fóru í kaupstað með fé til slátrunar, var
von á flökkurum. Við vorum inni í stofu að sauma og var ég að sauma
buxur karlmannanna og sagði Mekkín að ég hefði klárað þær en mér
finnst það svo ótrúlegt, bara 10 ára gömul.
Vorum við nú alltaf að gá að flökkurunum, og eitt sinn er ég leit út sé
ég hvar þeir koma austan túnið. Við lokuðum bænum, breiddum fyrir
gluggann og fórum upp á loft og upp í rúm og breiddum yfir okkur og
börnin, og dugði þetta allt því þeir fóru.
Um haustið fékk ég leyfi til að heimsækja mömmu mfna í Hamarssel
og mikið var ég búin að hlakka til ferðarinnar og var að vonum létt á
fæti inneftir.
Ég fékk smjörsköku sem ég strokkaði sjálf til að færa mömmu, en ég
kunni það því ég strokkaði alltaf þó að það þyrfti að setja hnall undir
fæturna á mér til að ég næði upp. I Hamarsseli stansaði ég í viku, og
þegar ég kom til baka var mér sagt að það væri búið að lóga naut-
skömminni og mikið var ég fegin því, það var farið að láta svo illa.
Einnig minnist ég þess um haustið að við Þorbjörn bróðir vorum send
upp á Hálsa til að tína mosa sem átti að nota í stopp í baðstofustafninn.
Við lentum í kalsaveðri og sudda þannig að mér var kalt og sagði Þor-
björn mér að hlaupa um en það gagnaði ekki, og við lögðum á stað heim
þar sem tekið var vel á móti okkur, og ég háttuð niður í rúm. Nú leið að
jólum og var tilhlökkunin mikil, og á aðfangadagskvöld fór Þorbjöm
bróðir með mig fram í stofu og gaf mér sælgæti sem hann hafði keypt
fyrir aura sem hann átti. Þetta voru sykurfígúrur og þótti mér mikið til
koma.
Það var ekkert um að vera um hátíðina nema að lesið var eins og tíðk-
aðist þá. Ég kom stundum í Strýtu til hennar Olafar meðan ég átti heima
á Hálsi.
Á Búlandsnesi
Eftir árið á Hálsi var ég lánuð að Búlandsnesi til læknishjónanna Ólafs