Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Side 117
MÚLAÞING
115
Fórum við síðan til baka niður á Þingvöll og höfðum við pantað skyr
hjá konunni sem við borðuðum þegar við komum ofan eftir. Mig minnir
við borða það úti og kostaði skyrdiskurinn eina krónu að sögn konunnar.
Þá gellur í manni fyrir aftan konuna að skyrið kosti nú meira, en konan
segir þá: “Það sem búið er að segja, það stendur.” Við eyddum deginum
í göngutúra svona eins og gengur og gerist hjá ferðalöngum og fórum
svo að huga að svefnstað næstu nótt, því margir voru að fara heim, svo
sem þeir sem voru á eigin hestum og vögnum.
Fengum við pláss í Konungsskálanum og kostaði gistingin eina krónu
bekkurinn og tókum við einn bekk því auramir voru nú ekki miklir í þá
daga. Daginn eftir var komin rigning þegar við vöknuðum og lögðum
við af stað gangandi í bæinn klukkan hálf ellefu. Stönsuðum við í sælu-
húsinu á heiðinni og tókum upp ávaxtadós sem við höfðum meðferðis,
en gátum ekki klárað nema niður í miðja dós. Svo við settum hana til
hliðar og báðum þá að þiggja sem næstir komu.
Okkur var hrollkalt, en það fór að stytta upp þegar vestar dró.
Við mættum heylestum á heiðinni, en fólkið hafði þá verið að heyja í
blíðskaparveðri. Héldum við áfram labbinu og þegar við komum niður
undir Elliðaár kemur stærðar farþegavagn frá Brautarholti og stansar, og
spyr bilstjórinn okkur hvaðan við séum að koma. Hann verður öldungis
hissa þegar við segjum honum að við séum búnar að labba alla leið frá
Þingvöllum. Býður hann okkur far niður á Skólavörðuholt, því hann sé
að fara þangað og þáðum við það auðvitað, dauðlúnar manneskjurnar,
enda búnar að vera á göngu 11-12 tíma og það á háhæluðum skóm.
Daginn eftir var ég alveg ómöguleg manneskja af harðsperrum, en
Sólveig systir mín var miklu betri, því konan sem hún var hjá nuddaði
hana þegar hún kom heim.
/ Höfn
Eitt sinn þegar ég kem heim sé ég að landshöfðingjafrúin er í heim-
sókn og situr við stofugluggann. Hún var nú ekki vön að koma í heim-
sókn, en erindið var að biðja mig að vera hjá dóttur hennar, Elínu Magn-
úsdóttur og manni hennar Júlíusi Guðmundssyni í Kaupmannahöfn. Var
það ákveðið að ég færi, því “tanta mín” hún Gyða sagði að ég skyldi
taka þessu, ég hefði gott af því.
Þetta var í marsmánuði og furðaði ég mig á því hvers vegna hún væri
að fala mig til dóttur sinnar. Komst ég að því að það var fyrir tilstilli frú
Hafstein sem mér var boðið þetta, en ég var búin að vera hjá henni. Hitti