Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Side 162
160
MÚLAÞING
Frá Evanger(shúsi) var stunduð útgerð og fiskverkun frá því ég man
fyrst eftir mér. Stefán Th. Jónsson kaupmaður gerði þaðan út vélbát,
sem Bergþóra hét. Örkin var og gerð út þaðan a.m.k. tvö til þrjú sumur.
Bræðurnir Jón B. Sveinsson og Brynjólfur Sigurðsson gerðu þaðan út
frá 1917 og fram um 1930. Síðast gerði Eiríkur Vigfússon í Sjávarborg
bát sinn út frá Evanger, svo og Eðvald Jónsson á Hrauni, en hann mun
hafa átt húsið síðastur manna. Eg hygg að Stefán Th. hafi eignast húsið
þegar Evanger hvarf frá Seyðisfirði, en hann mun síðast hafa verið með
síldarverkun á Siglufirði.
Jón Árnason barnakennari á Hrauni annaðist um tíma á árunum 1907-
1911 fiskmóttöku og fiskverkun fyrir Stefán Th. á Evanger. Einkum
mun fiskurinn hafa verið keyptur af Færeyingum, þó fleiri kunni að hafa
selt Stefáni fisk þar. (Myndin er líklega frá þeim tíma.)
Á gólfhæð hússins var beitningaskúr í austurhlutanum, en fiskaðgerð
og fiskverkun í vesturhlutanum. Aðgangur að bryggjunni var bæði frá
húsinu og meðfram því að utan. Á loftinu voru innréttuð nokkur íveru-
herbergi og eldhús, en töluverður hluti þess var ekki innréttaður. Þar
voru stundum haldnar samkomur.
Ég man ekki eftir Evanger, en mynd af honum (ungum) var í mynda-
albúmi foreldra minna.
Tvö atvik eru mér í minni frá barnsárunum. Maður, sem mig minnir að
héti Sigurjón Ketilsson, féll í sjóinn við Evangersbryggjuna og drukkn-
aði. Hitt atvikið var frá þeim tíma þegar Færeyingar gerðu Örkina út frá
Evanger. Formaður og líklega eigandi hét Georg. Það var eitt sinn þegar
skipverjar höfðu dregið línuna og haldið á stað til lands, að einn hásetinn
féll fyrir borð. Meðvindur var og höfðu skipverjar sett upp segl. Georg
svaf á sjófatnaði sínum á bekk í lúkar Arkarinnar þegar slysið varð.
Hann brá þegar við, stakk sér í sjóinn og náði í manninn, sem féll út-
byrðis. Það tók þá tvo skipverja, sem eftir voru í Örkinni skiljanlega
nokkurn tíma að fella seglin og snúa til baka og innbyrða Georg og há-
setann, en það tókst vel og þeim var báðum bjargað. Mig minnir að talað
væri um, að Georg hafi verið með manninn á sundi í hálftíma eða jafn-
vel lengur. Einnig minnir mig, að Georg hafi verið allþrekaður eftir þetta
einstaka björgunarafrek og legið rúmfastur einhverja daga.
Rvík 11. júní 1979
Hjálmar Vilhjálmsson
Það var, að mig minnir, Vilhjálmur Arnason sem sendi Múlaþingi grein Hjálmars og
myndina. A. H.