Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Page 176
174
MÚLAÞING
Mér þykir líklegt að Þórarinn hafi verið fóstraður upp af Ögmundi
sneis og Margréti Oddsdóttur austur í Hofteigi og þess vegna hafi mátt
segja að hann hafi komið fram í Fljótsdalshéraði.
Nafn Steinólfs Þórarinssonar er mjög ákveðin vísbending um, að Þór-
arinn hafi verið Ásbirningur, en amma Halldóru Arnórsdóttur, kona Kol-
beins Arnórssonar var Herdís Þorkelsdóttir Steinólfssonar.l0)
Goðorðadeila þeirra frænda, annars vegar Sæmundar og Guðmundar
Ormssona og hins vegar Þorvarðar og Odds Þórarinssona er vísbending
um að Þórarinn hafi verið skilgetinn. Synir Þórarins hefðu ekki haldið
nyrðri goðorðunum ef faðir þeirra hefði ekki haft sama erfðarétt og
Ormur Svínfellingur.
íslendingasaga segir ekki ítarlega frá deilunni, en þó má ráða af því
litla sem segir af henni að hún hefur orðið hörð.
Sagan segir:'1' ”Þá slást í þessi mál með Ögmundi Þórarinssynir, Þor-
varður og Oddur. Teitur Hallsson var með þeim Sæmundi og Guðmundi
og undi því eigi, er Ormur Svínfellingur hafði gefið Þórarni goðorð þau,
er Gróa Teitsdóttir, móðir hans, hafði átt og Ragnfríður systir hennar.
Og aldrei höfðu þær leyfi til gefið, að lógað væri goðorðunum. Nú fékk
Sæmundur eign goðorðanna af þeim, er löglega áttu og að erfðum höfðu
tekið.”
Seinna skýrir sagan frá lyktum málsins og dómsúrskurði Sæmundar
Ormssonar. Þar segir:l2) ”Það mannaforræði gerði hann sér til handa, er
þeir höfðu um deilt, en það var norður frá Lónsheiði um fjörðu til Gerpis
og til Eyvindarár upp í héraði, og skyldi það jafnt skerða beggja hlut
þeirra bræðra, - og jafna með sér þau goðorð, er norður voru þaðan.”
Af þessu sést að réttur Þórarinssona til að ráða nyrstu goðorðunum var
ekki véfengdur, en það hefði vafalaust verið gert ef Þórarinn hefði verið
laungetinn. Eins er nokkuð ljóst að goðorð þeirra Þórarinssona eru þrjú
nyrstu goðorðin á Austurlandi, goðorð Hofverja í Vopnafirði, Krossvík-
inga og Njarðvíkinga.
Þorvarður Þórarinsson var kvæntur Sólveigu Hálfdánardóttur frá
Keldum og það hefur verið talið vafalaust að móðir Sólveigar hafi verið
Steinvör Sighvatsdóttir. Ef Sólveig hefur verið dóttir Steinvarar, þá hafa
þau verið fjórmenningar Sólveig og Þorvarður á eftirfarandi hátt.
10) Sturl.I.b. Ættartölur. bls.53.
11) Sturl.I.b. íslendingasaga, bls.472.
12) Sturl.I.b. íslendingasaga, bls.475.