Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Qupperneq 191
MÚLAÞING
189
Lítið fékk maður fyrir fé sitt í haust; svona 15 kr. fyrir lambið - og
ekkert fyrir ull. Utlenda varan er dýr, og mönnum gengur illa að borga
vörur sínar með fénu.
Úr bréfum frá 27/12 1933 og 13/1 1934: Sumarið 1933 var allgott til
heyskapar; ég var einn við heyskap og heyjaði allvel. Tíðin var hagstæð
og urðu hey allvel verkuð. I haust versnaði svo tíðin, og voru fyrst rign-
ingar en síðan kom snjór. Hélst svo þar til eftir vetumætur, að þá batnaði
tíðin aftur og varð alauð jörð, og stóð svo til jóla, en þá versnaði aftur,
kom snjór og kuldi og hefur verið svo síðan, og er ekki útlit fyrir að tíð-
m batni í bráð. Sæmileg silungsveiði var í sumar og í haust veiddi ég
einnig allmikið.
Nú er brautin (þ.e. vegurinn) komin að Skjöldólfsstöðum og ætlunin
nrun vera að hún nái norður til Möðrudals á næsta sumri. Þar mun vera
hægt að hafa 6-8 krónur á dag í vegavinnu.
Úr bréfi frá 6/5 1935: Sumarið í fyrra (1934) var slæmt sumar, kalt og
lítið sólskin - lélegur grasvöxtur. Hey verkaðist illa og varð lítið að
magni. I haust og í vetur var afleit tíð, fyrst þokur og rigningar en síðan
frosthörkur, stormar og gaddur. Þó að stöku sinnum væri jörð kom það
að litlu gagni, þar sem spretta var lítil frá sumrinu áður og jörðin sölnuð
að kalla.
Skepnur fóðruðust illa frá hausti og alveg til sumarmála. Skepnuhöld
voru léleg víðast hvar sem til hefur spurst. En nú er komin góð tíð, og
var mönnum þörf á því eftir erfiðan vetur.
Ég hefi í vetur misst nokkrar ær, eða sex af rúmum fimmtíu, og vona
ég að ekki fari fleiri. Hafa þær farið úr pest, og eitthvað hefur farið í tóf-
una, en henni virðist hafa fjölgað mikið hér um slóðir og gengur illa að
vinna hana. Þetta tvennt; pestin og tófan - hefur eyðilagt mikið fyrir mér
nú, eins og stundum áður. Núna (6/5 1935) er ég búinn að sleppa fénu.
Úr bréfi frá 26/11 1935: Tíðin hér í vor var góð, og þurrkasamt fram
um sláttarbyrjun, en þó var fremur kalt loftslag, en svo þegar sláttur
hófst þá kólnaði fyrir alvöru og var kalt í allt sumar og óþurrkasamt, en
þó voru ekki miklar rigningar og urðu hey sæmilega verkuð. Svo sem
viku fyrir göngur þá versnaði tíðin. Atti ég þá á túninu allmikið hey, eða
um 20 heimflutninga. Náði ég því aldrei þurru og kakkaði því saman nú
nýverið, og veit ég svo sem ekki hvað hægt er að fá út úr því. Það hefur
verið ósköp stirð tíð, mikill snjór og jarðleysa, en þó eru dálitlar snapir
núna. Þokusamt hefur einnig verið.