Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Page 194
SIGURÐUR KRISTINSSON OG EGILL GUÐMUNDSSON
Frásagnir af Víðidalsfeðgum.
Egill Guðmundsson skráði þessar frásagnir eftir föður sínum Guð-
mundi Eyjólfssyni á Þvottá en hann hafði þær flestar eftir fóstra sínum
Guðmundi Einarssyni fyrrum bónda í Markúsarseli í Flugustaðadal.
Feðgarnir Sigfús Jónsson og Jón Sigfússon bjuggu á Grund í Víðidal í
Lónsöræfum frá 1883-1897. Ýmsar sögur hafa gengið af þeim feðgum.
Um þá og allan búskap þeirra er alllangur þáttur í 13. bindi af tímaritinu
Múlaþingi. Er þar safnað saman og unnið úr þeim upplýsingum, sem
fyrir liggja í áreiðanlegum heimildum um búskap þeirra. Hér er þáttur
um Sigfús og nokkrar sögur, sem upphaflega eru hafðar eftir honum.
Hann flutti með fjölskyldu sína frá Hvannavöllum í Geithellnadal til
Víðidals vorið 1883. Fyrstu tvö árin voru þau þrjú í dalnum, Ragnhildur
kona Sigfúsar og Jón sonur þeirra um tvítugt. Fjórða persónan kom í
heimilið vorið 1885, Helga Þorsteinsdóttir og varð hún síðar kona Jóns.
Auðbjörg, systir Ragnhildar, kom til þeirra vorið 1886. Var hún nærri
sextugsaldri, þótti fremur hjárænuleg og viðutan en var vel vinnufær.
Það vor kom einnig til þeirra vinnumaður en hann fór næsta vor og kom
bróðir Helgu, Bjarni Þorsteinsson, í hans stað. Það sumar fæddist elsti
sonur Jóns og Helgu. Eru þá sjö manns í heimilinu á Grund í Víðidal.
Mikið er af fjallagrösum í fjöllunum kringum Víðidal. Voru þau mikið
tínd og notuð í brauð og grauta en einnig voru þau seld. Hinn 5. ágúst
sumarið 1887 fór fólkið í Víðidal til grasa og tekur nú við frásögn sú, er
Guðmundur Eyjólfsson skráði. Til staðfestingar er stuðst við dagbækur
Jóns Sigfússonar:
Morguninn 5. ágúst 1887 var veður bjart og fór þá fólk í Víðidal til
grasa. Var Auðbjörg ein í hópnum en Sigfús var heima og gætti sonar-
sonar síns, Guðjóns, sem þá var fimm vikna gamall. Er á daginn leið
setti yfir svarta þoku og kom Auðbjörg ekki heim um kvöldið. Var þá