Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2004, Page 190
188
í ljós kom í lok leikskóla að fá börn gátu
lesið. Um og yfir 80% þeirra lásu þrjú orð eða
færri og var því ákveðið að sleppa mati á lestri
í lok leikskóla. í lok 2. bekkjar kom í ljós að
ókleift var að raða umsögnum kennara um
lestur barnanna í stighækkandi röð. Umsagnir
þessar lýstu framförum í lestri miðað við
gengi barnsins sjálfs, þannig að barn sem réði
illa við lestur en hafði farið mikið fram gat
fengið jafngóða eða betri umsögn en barn sem
hafði verið vel læst allan veturinn. Þvf var
óhjákvæmilegt að sleppa því lestrarmati.
Bókstafaþekking, sjónræn aðgreining
bókstafa og stafaruna og málþroski við upphaf
og lok síðasta leikskólavetrarins voru einnig
metin. Til þess að meta bókstafaþekkingu og
sjónræna aðgreiningu voru 2 undirpróf á Aston
Index prófinu notuð (Bjarnfrfður Jónsdóttir
o.fl., 1996). Á undirprófinu Bókstafir og hljóð
eru allir bókstafirnir settir með skýru letri upp
á blað, litlir stafir og stórir, hvor flokkur í
handahófskennda röð. Talið var hversu marga
stafi hvert barn þekkti. Á undirprófinu Sjónrœn
aðgreining sjá börn bókstaf eða bókstafarunu
og eiga að finna hvað er eins í hópi áþekkra
stafa eða stafaruna.
Tvö undirpróf á TOLD-2P málþroska-
prófinu, Endurtekning setninga og Botnun
setninga, voru notuð til þess að meta málþroska
barnanna, það fyrrnefnda við upphaf lokavetrar
í leikskóla og bæði prófin í lok vetrarins.
Þessi undirpróf voru valin vegna þess að
mælitölur fyrir þau voru þær mælitölur sem
hæsta fylgni höfðu við heildarútkomuna,
Málþroskatöluna, í íslenska staðfærsluúrtakinu
(Ingibjörg Símonardóttir, Einar Guðmundsson,
Sigurgrímur Skúlason og Sigríður Pétursdóttir,
1995).
Framkvæmd
Notuð voru verkefni úr kennsluhandbókinni
Markviss málörvun. Bókin er byggð þannig upp
að byrjað er á hlustunarleikjum þar sem bæði
er hlustað á umhverfishljóð og mál. Þar sem
hugtakið hljóðkerfisvitund vísar til hljóðkerfis
málsins var umhverfishljóðaleikjunum sleppt
hér. Úr öðrum viðfangsefnum voru valin
verkefni eftir því sem við átti úr öllum flokkum
og eru þeir flokkar því taldir upp hér. Næst á
eftir hlustunarleikjunum koma rímverkefni og
leikir. Þá taka við verkefni þar sem börnum er
kennt að átta sig á fyrirbærunum setningum og
orðum og þar á eftir koma leikir með samstöfur
eða atkvæði og síðan hljóðvitundarverkefni
þar sem byrjað er að greina forhljóð og loks
tengja saman og sundurgreina málhljóð. Þessir
flokkar eru því í þyngdarröð og innan hvers
verkefnatlokks er líka nokkur þyngdarröðun,
þannig að auðvelt var að raða verkefnum
saman eftir því hve erfið þau væru. Jafnframt
eru í bókinni tillögur að kennslufyrirkomulagi
og voru þær notaðar til að skipuleggja þá
kennslu sem hér á eftir er nefnd hefðbundin
markviss ntálörvun.
Fyrsti árgangur barnanna, árgangur 1,
fékk ekki Markvissa málörvun og var því
viðmiðunarhópur. Börnin í þeim árgangi
voru fyrst prófuð í lok leikskóla. Árgangur
2 fékk kennslu í Markvissri málörvun á sínu
síðasta leikskólaári. Kastað var krónu um hvor
leikskólinn notaði Markvissu málörvunina
þannig að börnin fengju ólík verkefni sem miðuð
voru við upphafsgetu þeirra (tilraunahópur) og
hvor notaði hefðbundna Markvissa ntálörvun
(samanburðarhópur). Börnunum í þessum
árgangi var skipt í þrjá getuflokka og var
þeint kennt í 4 - 6 barna hópunt, þrisvar í
viku, 20 mínútur í senn, samtals í 19 vikur
frá því í október og fram í apríl á lokaári
þeirra í leikskóla. Geta þeirra var fyrst metin
með forprófi í september áður en kennslan í
Markvissri málörvun hófst, síðan að lokinni
kennslu vorið áður en þau hófu grunnskólanám
og loks voru einkunnir í lestri fengnar í lok
fyrsta og annars bekkjar, en eins og áður sagði
var síðasta matinu sleppt.
Tilraunahópur og samanburðarhópur fengu
hvor sitt kennsluskipulag, annar tilsniðna
og hinn hefðbundna Markvissa málörvun.
Samanburðarhópurinn fékk hefðbundna
Markvissa málörvun í samræmi við það sem
lagt var til í kennsluhandbókinni og fengu
litlu hóparnir sams konar kennsluáætlun óháð
hljóðkerfisvitund bamanna. í tilraunahópnum
Tímarit um menntarannsóknir, 1. árgangur 2004