Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2013, Page 24
Anna Helga Jónsdóttir, Freyja Hreinsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Rögnvaldur G. Möller og Gunnar Stefánsson
sitja í nú. Meðalárangur batnar eftir því
sem styttra er frá stúdentsprófsári og því
fleiri misseri sem nemendur hafa setið í
stærðfræðinámskeiðum. Athygli vekur að
marktækur munur er á árangri nemenda
eftir skólum þó að leiðrétt sé fyrir því
hversu langt er liðið frá stærðfræðikennslu
og hversu margar annir nemendur sátu í
stærðfræðinámskeiðum. Þótt verulegur og
marktækur munur sé á frammistöðu nem-
enda úr mismunandi skólum er ekki hægt
að draga ályktanir um gæði kennslunnar
í skólunum því til þess þyrfti að auki
mælingar á kunnáttu áður en nemendur
hefja nám í framhaldsskólum og mörgum
öðrum þáttum. Vitað er að mikill munur
er á nemendahópunum sem byrja í skól-
unum og því er ekki hægt að bera skólana
saman án þess að hafa þau gögn tiltæk.
Fleiri þætti mætti nefna sem geta haft áhrif
á undirbúning nemenda í stærðfræði, svo
sem mismunandi námsframboð skólanna.
Fjölbrautaskólar sem þurfa að dreifa
námsframboði sínu mikið geta átt erfitt
með að bjóða upp á valáfanga og þyngri
áfanga í stærðfræði. Sömu sögu er að segja
um smærri skóla í dreifbýli þar sem ekki
er hægt að hafa sama námsframboð og í
stærri framhaldsskólum á höfuðborgar-
svæðinu.
Eins og sjá má á niðurstöðum könn-
unarprófsins standa nemendur sem hafa
fáar annir að baki í stærðfræði mun verr
að vígi en þeir sem lært hafa meiri stærð-
fræði. Það má því með nokkru öryggi
álykta að til að standast kröfur Verkfræði-
og náttúruvísindasviðs í stærðfræði þurfi
nemendur að hafa lokið tilteknum fjölda
áfanga í stærðfræði í framhaldsskóla.
I þessu sambandi er mikilvægt að þær
námskröfur sem gerðar eru til nemenda
í stærðfræði á háskólastigi séu vel skil-
greindar og aðgengilegar stjórnendum
framhaldsskóla, kennurum, nemendum
og námsráðgjöfum svo hægt sé að leið-
beina nemendum um námsval sem fyrst
í framhaldsskólanámi. Undanfarið hefur
verið unnið að slíkum skilgreiningum við
Háskóla íslands og mikilvægt er að um
þær skilgreiningar skapist umræða milli
framhaldsskóla og háskóla. Slík umræða
er sérlega mikilvæg í ljósi þess að vald til
námskrárgerðar hefur að miklu leyti verið
flutt til framhaldsskóla sem eru um þessar
mundir að móta námskrár nemenda sinna
(Menntamálaráðuneytið, 2011).
Niðurstöður könnunarprófsins sýna
að þó að nemendur hafi lokið tilskildum
stærðfræðiáföngum í framhaldsskóla
standa þeir ekki endilega vel að vígi í upp-
hafi háskólanáms. Hér hafa rannsakendur
bent á að jafnvel þó að námsefni fram-
haldsskóla og fyrsta árs í háskóla í stærð-
fræði sé svipað geti ýmsir þættir í menn-
ingu og hefðum stofnana gert nemendum
erfitt fyrir að beita þeirri þekkingu sem
þeir eiga að hafa tileinkað sér eða nýta
hana. Þannig benda erlendar rannsóknir
til þess að aðferðir við stærðfræðikennslu
séu aðrar í framhaldsskólum en háskólum.
Meiri áhersla sé lögð á utanaðbókaraðferð-
ir og þjálfun í aðferðum á meðan kennsla í
stærðfræði á háskólastigi geri meiri kröfur
um óhlutbundna hugsun, réttlætingu
lausna og vinnu með kenningar (Thomas
o.fl., 2012). Einnig hefur verið bent á að
kennsla í framhaldsskólum byggist meira
á yfirborðsnálgun en dýpri skilningi á
22