Ráðunautafundur - 15.02.1991, Page 57
-49-
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1991
Beitarstjórnun á ræktuðu landi
Ólafur Guðmundsson
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
INNGANGUR
Með tilkomu kvóta í búfjárframleiðslu hefur nýting túna til slægna víða minnkað og
möguleikar til beitar hafa því aukist. Einnig hefur tilkoma rúllubaggatækninnar og
vinsældir hennar gert það að verkum að betra er að samræma slátt og beit. Þessar
breytingar krefjast breyttrar skipulagningar og stjórnunar, til að auka hagkvæmni og
draga úr áhættu sem alltaf er samfara beit.
Það hefur oft verið sagt að auk þess að byggjast á almennri þekkingu sé góð
fóðrun búfjár listgrein. Þetta er eflaust rétt, en á þó enn frekar við um fóðrun á beit
en innifóðrun. Góð beitarfóðrun byggist alfarið á góðri beitarstjórnun. Hún felst í
stórum dráttum í því að fullnægja þörfum gróðurs og búfjár, á sama tíma og vinnu
og öðrum kostnaði er haldið í lágmarki. Beitarstjórnun fer mikið eftir aðstæðum á
hverjum stað, hvaða búfjártegund á í hlut og hvenær beitt er. Hún byggir á magni
og gæðum þess gróðurs sem er í beitilandinu, fjölda og framleiðslugetu búfjárins og
hversu vel beitin nýtist.
Hér á landi er beitarmenning á ræktuðu landi mjög skammt á veg komin.
Innlend þekking á beit á ræktuðu landi, bæði almenn og staðbundin, er af skornum
skammti og lítil sem engin uppsöfnuð reynsla frá fyrri tímum er fyrir hendi hjá
bændum. Þetta lýsir sér m.a. í því að orðaforði er mjög takmarkaður og á reiki á
þessu sviði. Það er því ekki heiglum hent að leiðbeina um stjórnun beitar á ræktuðu
landi. Það sem einkum er byggjandi á af innlendum upplýsingum er reynsla bænda
sem hafa náð langt í beitarstjórnun, s.s. Sverris Magnússonar á Efra-Ási í Hjaltadal
(1) og Heiðars Kristjánssonar á Hæli í Torfalækjarhreppi (2), sem aðrir ættu að geta
lært af, og takmarkaður fjöldi tilrauna (3, 4, 5) og athugana. Þar sem þessu sleppir
verður að byggja á erlendri grundvallarþekkingu (6, 7) eftir því sem hægt er. Rétt
er að benda mönnum á að lesa tvær greinar um beit mjólkurkúa eftir þá Þórarinn
Lárusson og Ólaf Guðmundsson frá 1981 (8) og eftir Jón Viðar Jónmundsson frá 1990
(9).