Ráðunautafundur - 15.02.1991, Page 75
-67-
áætluð á tiltölulega stuttum tíma. Þær tegundir sem fundust í hverjum hring voru
ekki metnar með minni þekju en 1%. Venjulega var þetta gert á fimm stöðum í
hverju túni, en ef gróðurfar túnanna var mjög breytilegt var hringnum kastað sjö
sinnum. Meðaltal þessarra mælinga var látið gilda fyrir túnið. Tegundir sem sáust
í túnunum en komu ekki í hringina voru ekki taldar með. Venjulega var gengin
hornalína yfir túnið og hringnum hent út með jöfnu millibili á þeirri línu. Þessi
aðferð er býsna nákvæm, þegar verið er að skoða ung tún, en erfiðara er að fá
nákvæmt mat á eldri túnum þar sem gróðurfar getur verið breytilegt eftir því hvar er
á spildunum. Þá er rétt að geta þess að það hefur áhrif á matið hvenær sumarsins
það er framkvæmt. Hlutur vallarfox- og háliðagrass verður væntanlega ofmetinn ef
túnin eru mikið sprottin þegar þau eru skoðuð vegna þess að þessar tegundir eru
hávaxnar og skyggja á hinar. Einnig er líklegt að vallarfoxgras mælist meira á vorin
en í endurvexti, því að það er mun seinna af stað eftir slátt en aðrar tegundir.
Túnunum á hverjum bæ var skipt eftir aldri, meðferð og því hverju var sáð í þau,
og hvert tún skoðað fyrir sig. Þó var reynt að skipta þeim ekki mjög mikið upp
þannig að spildum sem eru áþekkar að aldri, meðferð og fleiru var gjarnan slegið
saman. Þá voru litlir blettir sem höfðu verið unnir sér eða fengið óvenjulega meðferð
oft ekki skoðaðir sérstaklega, heldur var þeim sleppt, en stærð þeirra þó reiknuð með
nærliggjandi túni.
Reynt var að hafa bróðurpart túnanna á hverjum bæ með í úttektinni til að
fyrirbyggja skekkt úrtak.
Að meðaltali voru 8 tún á hverjum bæ, minnst 3 en mest 17. Heildarstærð túna
á hverjum bæ var um 32 ha að meðaltali.
NIÐURSTÖÐUR
Eftirfarandi tafla sýnir þekju (%) einstakra tegunda eða tegundahópa í túnum á
mismunandi svæðum. Við útreikninga höfðu öll tún sama vægi, þ.e. bæði stór og
lítil. Tölurnar í svigunum aftast sýna hlutdeildina þegar búið er að leiðrétta fyrir
stærð túnanna. Það breytir niðurstöðunum lítið. Mestu skiptir þetta fyrir beringspunt,
snarrót og vallarfoxgras. í töflunni er ekki gerður greinarmunur á skriðlíngresi og
hálíngresi, en báðar þessar tegundir fundust. Þá voru allar starir settar í einn flokk.
Ennfremur var sóleyjum slegið saman í flokk, svo og fíflum. Af sóleyjum bar mest
á brennisóley en skriðsóley og hófsóley sáust einnig. Fíflarnir eru túnfífill og
skarifífill. Möðrum, hærum og elftingu var ekki heldur skipt í tegundir. Alls fundust
því á milli 30 og 40 tegundir í þessum túnum.