Ráðunautafundur - 15.02.1991, Page 78
-70-
Á þessu sama svæði voru hins vegar víða falleg tún með háliðagrasi þótt gömul
væru. Beit virðist ekki skaða háliðagras. Það er fljótt til á vorin og því heppilegt til
vorbeitar. Það sprettur hins vegar fljótt úr sér og er viðkvæmt fyrir ryðsvepp. Það
væri æskilegt að skoða þetta samspil tegunda og meðferðar betur í tilraunum. Það
er vel hugsanlegt að háliðagras henti til ræktunar þar sem mikið er beitt og ytri
skilyrði (jarðvegur og veður) eru hagstæð.
Notkun rúllubindivéla hefur aukist mjög á seinni árum, ekki síst á Austurlandi.
Þeir sem nota rúllubindivélar eru ekki eins háðir veðri við heyskapinn og hinir sem
hirða í þurrhey, og þeir geta einnig slegið fyrr vegna þess að ekki þarf að fullþurrka
grasið. Þetta býður upp á meiri breytileika í sláttutíma og fjölda slátta.
Vallarfoxgras þolir illa að vera slegið snemma og slegið tvisvar. Þessi nýja tækni
gæti því verið hættuleg vallarfoxgrasi. Hins vegar er hún hagstæð fyrir tegundir eins
og háliðagras og snarrót. Hjá þessum tegundum fellur fóðurgildið tiltölulega snemma.
Með því að slá þessar tegundir snemma og tvisvar má fá af þeim ágætt fóður og góða
uppskeru. Langflestir nota blandaðan áburð á túnin og bera á þann skammt sem
ráðlagður er. Mikill hluti túnanna fær einnig búfjáráburð af og til. Næringarástand
jarðvegs ætti því að vera gott.
Með því að brjóta land og sá í það er verið að breyta náttúrulegu gróðurfari þess
í þeim tilgangi að fá gróður í það sem fullnægir óskum um uppskeru, fóðurgildi og
fleira. En vegna þess að sáðgresið er oft á tíðum ekki náttúrulegt í landinu, a.m.k.
ekki í þeim hlutföllum sem því er sáð, víkur það smám saman fyrir öðrum gróðri.
Það ræðst af ýmsum þáttum hversu langan tíma þessar breytingar taka, m.a. því
hversu hagstæð ýmis ytri skilyrði eru viðkomandi tegundum, svo sem veðurfar,
jarðvegur og meðferð. Það hlýtur því að vera æskilegt að nota tegundir sem vel henta
bæði náttúrulegum skilyrðum á hverjum stað og þeirri meðferð sem vænta má að
landið fái.
Hér á landi höfum við gert of lítið af því að skipta landinu niður eftir
náttúrulegum skilyrðum og leiðbeina um val á sáðgresi eftir nýtingu. Að nokkru leyti
stafar þetta af því að ekki hefur verið hægt að fá fræ af öllum tegundum, en einnig
hefur vantað meiri þekkingu á samspili tegunda, umhverfis og meðferðar.
Ein blanda hefur verið ráðandi á markaðnum um allt land síðastliðin 20-30 ár, þ.e.
blanda með um 50% vallarfoxgrasi og um 25% af hvoru fyrir sig túnvingli og
vallarsveifgrasi. Vallarfoxgrasið er notað vegna þess að það þykir uppskerumikið og
er talið gefa gott fóður. Hinar tegundirnar gefa meiri endurvöxt og eru til staðar
þegar vallarfoxgrasið víkur. Langmest ber á vallarfoxgrasinu fyrstu árin.