Skírnir - 01.09.2017, Page 10
tuttugustu aldar hélt Matthías Johannessen skáld og ritstjóri því
fram af nokkurri festu að Sturla væri höfundur sögunnar. Á síðustu
árum hefur Einar Kárason rithöfundur tekið upp þráðinn frá
Matthíasi í þessu efni. Hér verður brugðist við þessum tilgátum um
sköpun Eglu og Njálu. Fyrst er fjallað almennt um þær aðferðir sem
menn hafa notað við leit að höfundum íslenskra fornsagna og nýleg
aðferð kynnt til sögunnar, stílmæling (e. stylometry) í anda ástralska
bókmenntafræðingsins Johns F. Burrows. Eitt afbrigði hennar
verð ur síðan nýtt til að gera samanburð á Íslendingasögum, Land-
námabókarhandriti Sturlu og einstökum sögum í Heimskringlu og
Sturlungu. Niðurstöður þeirrar stílmælingar gefa vísbendingar um
hvort Heimskringla og Egla séu verk eins höfundar og eins hvort
Sturla Þórðarson hafi samið Njálu.4
Rannsóknaraðferðir
„Treystu aldrei áhrifum skyndiathugunar, en reyndu að grandskoða
öll smáatriði og festa þau þér í minni,“ segir Sherlock Holmes við
vin sinn, dr. John H. Watson, í „A Case of Identity“, einni af leyni-
lögreglusögum breska rithöfundarins Arthurs Conan Doyle (1859−
1930) um þá félaga (Doyle 1980: 52). Flestar hafa þær að geyma
dæmi um hvernig Holmes fylgir eigin ráði. Í upphafi „A Case of
Identity“ dregur einkaspæjarinn klóki til að mynda þá ályktun af
274 jón, sigurður, steingrímur skírnir
4 Steingrímur og Sigurður önnuðust stærðfræðilega þróun og tölfræðilega úrvinnslu
efnisins, bæði í sameiningu og sitt í hvoru lagi. Niðurstöður þeirra voru samhljóða.
Steingrímur annaðist myndræna úrvinnslu á niðurstöðunum. Eftir að þessi rann-
sókn var unnin benti einn af yfirlesurum þessarar greinar á að Haukur Þorgeirs-
son (2015a) hefði fyrir tveimur árum kynnt eigin stílmælingar á Eglu og
Heimskringlu með aðferð Burrows í fyrirlestri sínum „Skáldið í tíðninni“. Hann
flutti annan fyrirlestur um efnið, „„En er haustaði …“ Stílfræðileg líkindi Egils
sögu og Heimskringlu“ á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands (Haukur Þor-
geirsson 2015b). Er Haukur brautryðjandi í beitingu þessarar rannsóknaraðferðar
á íslenska texta. Grein Hauks sem byggist á umræddum rannsóknum, „How similar
are Heimskringla and Egils saga? An application of Burrows’ delta to Icelandic
texts“, hefur verið samþykkt til birtingar í European Journal of Scandinavian Studies
(Haukur Þorgeirsson 2018). Eru niðurstöður hans um viðkomandi verk að flestu
leyti sambærilegar þeim niðurstöðum sem hér eru kynntar. Við viljum þakka Hauki
fyrir að leyfa okkur að lesa þá grein í handriti og fyrir gagnlegar umræður um efnið.
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 274