Skírnir - 01.09.2017, Page 19
283fingraför fornsagnahöfunda
Möðruvallabókar hins vegar aðeins 15% (Haukur Þorgeirsson
2014: 71−72). Niðurstaðan dregur úr líkum á að „en er“ sé fingrafar
einhvers afritara og styrkir þá álykt un Hallbergs að sami höfundur
hafi samið Heimskringlu og Eglu. Að auki kannaði Haukur tíðni
„en er“ og „ok er“ í þremur handritum „Gylfaginningar“ í Snorra-
Eddu og komst að því að þar var hlutfall „en er“ æði hátt, eða 83%.
Sú niðurstaða dregur úr þeirri óvissu sem ríkir um hvort sami höf-
undur sé að Heimskringlu og Snorra-Eddu. Í lokaorðum sínum
segist Haukur þó ekki telja „að stakt stíleinkenni nægi til að sanna
að um sama höfund sé að ræða“ að þessum tveimur textum og Eglu
(Haukur Þorgeirsson 2014: 73). Hann gerir sér grein fyrir að þótt
tekist hafi að fjölga baunum í lúkunni er enn um að ræða tilgátu,
ályktun sem byggist á því sem Peirce nefndi fráleiðslu.
Fingraför Snorra
Í umræðum um tengsl Heimskringlu og Eglu er ekki aðeins algengt
að menn leiði hjá sér þá óvissu sem ríkir um aðkomu Snorra Sturlu-
sonar að ritun fyrrnefnda ritsins heldur einnig almennari vanga-
veltur um tilurð þess. Til að bæta úr þessu má rifja upp hugtök sem
skilgreind eru í skrifum samtímamanns Snorra, ítalska guðfræðings-
ins Giovannis di Fidanza (Heilags Bonaventura, 1221–1274). Hann
gerði þar greinarmun á:
a. skrásetjara (lat. scriptor) sem „skrifar niður efni annarra, án
þess að bæta við eða breyta einhverju“,
b. samsetjara (lat. compilator) sem „skrifar niður efni annarra,
bætir við, en engu frá eigin brjósti“,
c. ritskýranda (lat. commentator) „sem ritar bæði niður efni
annarra manna, og sitt eigið, en efni annarra er höfuðefnið,
og hans eigið þjónar því hlutverki að skýra það“ og loks
d. höfundi (lat. auctor) sem „skrifar bæði niður eigið efni og
annarra, en hans eigið sem höfuðefni, og efni annarra þjónar
því hlutverki að staðfesta hans“.13
skírnir
13 Sbr. Guðrún Nordal 2016. Tilvitnanir fengnar úr A. J. Minnis 1984: 94−100.
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 283