Skírnir - 01.09.2017, Page 55
319þjóðmenning og lagaleg réttindi
Þessa skoðun má rekja til Herders, en hann skilgreindi þjóðir sem
lífrænar heildir sem vaxa og þroskast í samspili við hið náttúrulega
umhverfi sem þær búa við. Hver þjóð er því einstök og einkennist
af sérstökum þjóðaranda. Tungumálið gegnir hér lykilhlutverki,
enda birtist þjóðarandinn einna skýrast í ólíkum tungumálum.
Herder taldi að ríkisvaldið skipti litlu máli við mótun þjóðarandans,
enda væri ríkið „vélrænt“ fyrirbæri sem gjarnan stjórnaði mörgum
þjóðum. Samkvæmt franska mannfræðingnum Louis Dumont
(1986) þá litu Þjóðverjar á þjóðina sem „sameiginlegan einstakling“,
skilgreindan af menningu sinni fremur en samansafn einstaklinga. Í
Þýskalandi, skrifaði Dumont (1986: 130–131), „er ég fyrst og fremst
Þjóðverji, og ég er maður í gegnum það að vera þýskur“. Samkvæmt
Dumont eru þjóðir síðan bornar saman og þeim raðað í ákveðið
stigveldi þar sem sumar þjóðir eru betri (upprunalegri, hreinni) eða
voldugri en aðrar, eins og sést einna skýrast hjá Fichte. Þjóðverjar
litu á sig sem þjóð „skálda og heimspekinga“, enda togstreita og
jafnvel andstæða menningar og stjórnmála landlæg og hluti af þýskri
sjálfsmynd. Uppreisn rómantísku stefnunnar gegn nútímanum
leiddi til áherslu á sérstaka þýska menningu og gildi fremur en vest-
ræna siðmenningu og almenn gildi sem upplýsingastefnan lagði
áherslu á. Í Þýskalandi varð því menning að eins konar staðgengli
stjórnmála (Lepenies 2006).
Taka má skoðanir Frakkans Ernest Renan (1996) sem dæmi um
pólitískan skilning á þjóðinni. Í frægum fyrirlestri, „Hvað er þjóð?“
sem hann hélt árið 1882, hafnaði hann öllum hlutlægum skilgrein-
ingum á þjóðarhugtakinu og taldi að þjóð byggðist á því að fólk
skilgreindi sig sjálft sem þjóð óháð t.d. tungumáli, menningu og trú.
Taldi hann tilvist þjóðarinnar byggjast á „daglegri þjóðaratkvæða -
greiðslu“ um það hvort fólk vildi tilheyra þjóðinni, hún væri fyrst
og fremst huglægt fyrirbæri og því illskilgreinanleg. Þessi pólitíski
vilji fólks til að mynda þjóð var þó ekki sprottinn upp af engu,
heldur að miklu leyti afsprengi ríkisvaldsins og sameiginlegrar
stjórn málasögu. Sameiginlegar minningar eru, samkvæmt Renan,
lykillinn að mótun hins sameiginlega vilja til að vera þjóð. Sam-
kvæmt Dumont (1986: 130) litu Frakkar á þjóðina sem samansafn
einstaklinga fremur en „sameiginlegan einstakling“; Frakkar eru
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 319