Skírnir - 01.09.2017, Page 59
323þjóðmenning og lagaleg réttindi
aðgreinanlegt og upprunalegt — muninum á „okkur“ og „hinum“
— á sama tíma og leitast er við að herma eftir stofnunum og þjóð -
skipulagi þeirra sem eru ríkari (eða þróaðri) og valdameiri. Hvaða
afleiðingar þetta hefur er nokkuð umdeilt meðal fræðafólks, en hjá
þeim sem leggja áherslu á muninn á pólitískri og menningarlegri
þjóðernishyggju eru afleiðingarnar djúpstæðar. Samkvæmt Kohn
(1944: 330) er menningarleg þjóðernishyggja afleidd, við brögð við
pólitískri þjóðernishyggju. Menningarleg þjóðernishyggja var því
viðbrögð við vanþróun og einkennist af van máttar kennd. Menn-
ingarleg þjóðernishyggja er því á sama tíma bundin af ytri áhrifum
og andsnúin þeim; hún vill líkjast eða herma eftir ákveðinni fyrir-
mynd en gera um leið sem minnst úr fyrirmyndinni eða afneita
henni. Afleiðingin er ofuráhersla á það hve sérstök, djúp og vitur
eigin þjóðmenning sé. Kohn er hér undir áhrifum frá Nietzsche
(2010) og hugmyndum hans um skapandi kraft öfundarhaturs. Liah
Greenfeld (1992: 15), einn þekktasti fræðimaður heims á sviði þjóð-
ernishyggju, vitnar beint til hugtaks Nietzsches í þessu sambandi.
Að mati Greenfeld er þjóðernishyggja bæði alþjóðlegt og innlent
fyrirbæri. Englendingar voru fyrsta þjóðin sem skilgreindi sig sem
„fullvalda fólk“, en sem viðbrögð við þessu skilgreindu aðrar þjóðir
sig síðan sem „einstakt fólk“. Þjóðir sem skilgreina sig sem fullvalda
fólk, einkennast af frjálslyndri einstaklingshyggju en þjóðir, sem
skilgreina sig sem einstakar, hneigjast aftur á móti til heildarhyggju.
Þær þjóðir sem eru seinar á ferð sögulega séð, eru fyrst og fremst að
bregðast við alþjóðlegri þróun, herma eftir eða yfirfæra tiltekið líkan
eða módel (þjóðríkið) frá einu landi til annars. Þetta er að mörgu
leyti erfitt og flókið, ekki síst þar sem eftiröpun af þessu tagi felur í
sér að líkanið sé merkilegra eða betra en sá sem tekur það upp. Ef lík-
anið eða módelið er ekki talið betra er lítil ástæða til að yfirfæra það
frá einu landi til annars. Líkanið þarf því að endurtúlka og gera inn-
lent, leggja áherslu á hversu upprunalegt og einstakt það sé, að þar
fari jafnvel endurreisn eða endursköpun fornrar gullaldar. Nútím-
inn er því „í raun“ ekki erlend uppfinning heldur innlent fyrirbæri,
jafnvel fornt og þjóðlegt.
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 323