Skírnir - 01.09.2017, Síða 62
að þroskast á eigin forsendum. Menningarleg þjóðernishyggja lítur
því á framfarir eins og tré þar sem greinarnar teygja sig til himins
með ólíkum hætti.
Hnignun þjóðarinnar í samanburði við nágrannaþjóðirnar var
bæði Fjölnismönnum og Jóni Sigurðssyni brýnt viðfangsefni. Á
yngri árum talaði Jón Sigurðsson stundum í anda Herders um þjóðar-
anda sem haldið væri niðri, en fyrst og fremst gagnrýndi hann
skipulag verslunar og atvinnu, skort á frjálsræði, menntun og fram-
farahug, sem Alþingi skyldi ráða bót á. Meðal Fjölnismanna var
Alþingi enn skýrari orsakaþáttur. Þegar hetjur riðu um héruð var
þjóðarandinn frjáls og Alþingi á Þingvöllum besta dæmið um það.
Til að Ísland gæti staðið öðrum löndum jafnfætis þyrfti að blása
nýju lífi í þjóðarandann, m.a. með því að endurreisa Alþingi að
fornri fyrirmynd á Þingvöllum. Hér var lagður grundvöllur að upp-
hafningu þjóðveldisins sem gullaldar Íslendinga og sú upphafning
náði einna mestu flugi í ritum Jóns Aðils við upphaf tuttugustu
aldar. Hér má einnig finna áherslu á sérstakar íslenskar framfarir og
íslenska stjórn. Benedikt Sveinsson (1826–1899) var þeirrar skoð -
unar að innlend stjórn væri forsenda framfara. Í einni af sínum fjöl-
mörgu ræðum fjallaði hann um þau sérstöku ytri og innri skilyrði
sem íslenskt stjórnarfar yrði að laga sig að:
Til hinna ytri skilyrða tel ég einkum fjarlægð landsins frá Danmörku, og
annað það einkennilegt, er hönd náttúrunnar hefur áskapað Íslandi, og sem
er svo einstaklegt, að eg er viss um, að land vort í þessu efni ekki á full-
kominn líka sinn í allri norðurálfunni. Það sjá allir heilvita menn, að eigi er
unnt að endurbæta ástandið, sem er, með tómum dauðum, annarlegum og
framandi lagabókstaf, heldur einungis með þeirri stjórnskipun, sem sniðin
er eptir þessu einkennilega „physiska“, „klimatiska“ og „geographiska“ eðli
landsins. Hinum innri skilyrðum er eigi síður óumflýjanlegt að fullnægja:
þjóðhættir Íslendinga, landsvenjur, lög og siðir, hinn lifandi, verandi og
verkandi þjóðernisandi Íslendinga i heild sinni hlýtur að vera lífið og sálin
i hinni nýju stjórnskipan vorri, ef hún á að koma oss og niðjum vorum að
tilætluðum notum. Með þessu og engu öðru móti næst sannur grundvöllur
verulegrar stjórnarbótar fyrir Ísland í orðsins rétta skilningi. (Tíðindi frá
Alþingi Íslendinga 1872: 749)
326 birgir hermannsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 326