Skírnir - 01.09.2017, Page 93
357„ef að jeg fengi frá þér blað …“
Gröndals til Sigríðar) og góðar óskir henni til handa. Þó að óvíst sé
hvenær bréfið er skrifað má velta því fyrir sér hvort þar sé vísað í
kvæðasafn Gröndals (Kvæðabók) sem kom út árið 1900. Hann
ræðir um „mitt kvæðasafn“ sem sé „biblían mín og blessun há, /
buldrinu heims þá svíf ég frá; / og ef vorgolan andar hlý, / öll verða
kvæðin sífellt ný“ (Benedikt Gröndal 1954: 338). Að vísu gaf hann
út kvæði sín í fleiri bókum en þetta er helsta kvæðasafn hans og auk
þess er tónninn í ljóðabréfinu þannig að skáldið er farið að líta um
öxl og finnur að árunum fækkar. Í bréfi til Eiríks 18. október 1900
ræðir hann á svipaðan hátt um „þetta kvæðasafn“19 sem hann hafi
nú gefið út og það gæti því verið vísbending um ritunartíma ódag-
setta ljóðabréfsins.
Rómantískt daður
Gröndal birti „Gaman og alvöru“ og ýmis önnur kvæði sem hann
orti til Sigríðar í áðurnefndu kvæðasafni, Kvæðabók (1900), en hann
var þá kominn á áttræðisaldur. Greinilegt er að hann vildi ekki að
litið væri á samband þeirra sem annað en góðan vinskap og ekkert
umfram það. Í Kvæðabók segir hann í neðanmálsgrein við afmælis -
kvæðið sem hann hafði ort til Sigríðar 17. mars 1854 — og á þá
einnig við önnur kvæði sem hann orti til hennar: „Menn skyldu
halda að þessi kvæði væri sprottin af ást, en svo er alls ekki. Sigríður
var svo fjörug, gáfuð og kát, að ég hafði hana til að yrkja um. „I
want a hero, an uncommon want“, segir Byron“ (Benedikt Grön-
dal 1900: 285, sbr. Benedikt Gröndal 1948: 530). Tilvitnunina tekur
Gröndal úr fyrsta söng (Canto) í kvæðabálknum Don Juan (1819)
eftir Byron lávarð. Hún hljómar kannski sakleysislega en er þó
sannast sagna tvíræð vegna þess að Byron og hetja hans — Don
Juan — áttu það einmitt sameiginlegt að vera frægir kvennamenn.
Með tilvitnuninni gerir Gröndal því ekkert til að eyða óvissunni um
skírnir
19 „Altsvo: ég hef gefið út þetta kvæðasafn, en ég vona þú sjáir, að ég hef ekkert kært
mig um að spekúlera í, hvort mönnum muni líka eða ekki líka. Þess vegna gaf ég
út langa bréfið, sem ég skrifaði ykkur einu sinni og ég nú kalla „Gaman og alvara“.
Ég vona þú lesir formálann, þar hef ég minnzt á það“ (Benedikt Gröndal 1954:
324).
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 357