Skírnir - 01.09.2017, Page 95
359„ef að jeg fengi frá þér blað …“
Hegðun og tjáningu Gröndals verður best lýst sem daðri af ákveðnu
tagi.
Daður (e. flirtation, fr. coquetterie) er skylt en þó ólíkt þeirri
orðræðu ástarinnar sem Roland Barthes skilgreinir í áðurnefndu riti
sínu, Fragments d’un discours amoureux. Ástarorðræðan markast oft
af einsemd eða skorti á sambandi og því að einn talar til annars sem
tjáir sig ekki. Hún birtist þá einkum sem eintal hins ástfangna eða yfir -
gefna. Daðrið stendur aftur á móti ekki undir sér nema báðir aðilar
taki þátt í því og það er því alltaf eins konar samtal.24 Rómantískt
daður einkennist gjarnan af hugmyndaríkum leik eða gáska (e. imag-
inative playfulness, sjá Throsby 2004). Ljóðabréf og kvæði Gröndals
til Sigríðar eru einmitt full af slíkum leik. Þar er slegið í og úr og ýmist
talað í gamni eða alvöru (sbr. kvæðið „Gaman og alvara“). Bréfin og
kvæðin bera vott um ólíkindalæti og sífelld umskipti í efni og aðferð.
Um leið eru þau hluti af samtali sem fer fram bréfleiðis og með
ýmsum öðrum hætti. Bréfaskipti og samband Gröndals og Sigríðar
má því skilja sem rómantískt og listrænt daður á báða bóga. Þau heilla
hvort annað með gáfum sínum og list þó að þau séu ekki elskendur
ef marka má það sem þau segja um samband sitt eftir á. Áðurnefnd
orð Gröndals í bréfinu frá því í maí 1858 til Sigríðar, sem þá var gift
kona, sýna hve langt daðrið gat gengið af hans hálfu: „Ef að jeg fengi
frá þér blað, / færi jeg allteins vel með það / og það unnustu flýgi
frá, / jeg feldi það mínu brjósti á.“ Gröndal líkir sér við ástfanginn
mann sem þrábiður hina elskuðu um að svara og hann muni síðan
geyma bréfið við hjarta sér, væntanlega sem sannindamerki um að
ástin sé endurgoldin. Daðrið er þarna nánast orðið að ástarorðræðu
sem einkennist af skorti á sambandi og ósk um að úr því verði bætt.
skírnir
fræðilegan hátt sem merki um depurð eða þunglyndi og það hefur Ármann
Jakobs son (2012) einmitt gert í greininni „Sérkennilegur, furðulegur og undar-
legur einfari eða: Hvernig túlka má depurð skálda“. Kenningar um daður má
hins vegar nota til að varpa ljósi á ákveðna félagshegðun í stað þess að einskorða
sig við sálarlífið.
24 „But unlike Barthes’s lover in solitude, who is “confronting the other …, who
does not speak,” flirtation can be sustained only if an Other plays along. In ef-
fect the flirting parties always perform a sort of dialogue“ (Schwartz, Nagel og
Stone 2015: 4). Um daður og ástleitni í bréfum frá nítjándu öld til rafrænna sam-
skipta á okkar dögum, sjá Wyss 2014.
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 359