Skírnir - 01.09.2017, Page 102
Ef hugað er að umræðunni um „pólitískan rétttrúnað“, eins og
hún hefur birst innan háskólasamfélaganna, í fjölmiðlum og öðrum
samfélagsmiðlum, kemur í ljós að jafnan birtist hún með þeim hætti
að einstaklingar eða hópar eru sakaðir um öfgar með því að aðhyll-
ast slíkan „rétttrúnað“ og þeir hvattir til þess að temja sér minni
hreinstefnu og sætta sig við heiminn eins og hann er. Þegar „rétt-
trúnaður“ er farinn að hafa mikil áhrif á sviði stjórnmála er við hæfi
að huga að þróun þessa hugtaks.
Ekki er þó einfalt að gera grein fyrir uppruna og ástæðum þess
að þetta skammaryrði er svo miðlægt í umræðunni. Raunar er það
ekki fyrr en upp úr 1990 að þetta hugtak verður áberandi en rekja
má uppruna þess til loka 18. aldar. Það kemur fyrst fram á prenti árið
1793 í dómsúrskurði í hæstarétti Bandaríkjanna í máli Chrisholm
gegn Georgíufylki um rétt einstaklings til að setja fram kæru á
hendur fylkinu. Í dagblöðum skýtur það fyrst upp kollinum 1911
þegar það er notað um stjórnmálamenn sem virtu þann ramma sem
kosningabaráttu þeirra var sett. Það er aftur á móti orðið algengt
innan bandaríska kommúnistaflokksins í kringum 1930 og síðar,
sérstaklega um flokksfélaga sem fylgdu stefnu Stalíns, m.a. eftir
griðarsáttmálann við Hitler, og er áfram notað innan vinstrihreyf-
ingarinnar eins og komið verður betur að síðar. Lengi er það bundið
við háskólasamfélagið þar sem segja má að hugmyndir pólitísks
rétttrúnaðar væru að hluta til stofnanavæddar, uns það verður á allra
vörum undir lok 20. aldar, fyrst í Bandaríkjunum en verður síðan
mótandi í samfélagsumræðunni á Vesturlöndum.2
Ýmsar fræðilegar úttektir hafa verið gerðar á pólitískum rétt-
trúnaði þar sem hann er ýmist flokkaður sem hagsmunabundin
orðræðugreining eða sérstök stefna en í því sambandi eru verk fræði-
manna eins og Violu Schenz (1994), Sabine Wierlemann (2002),
Mathias Hildebrandt (2005) og Imke Leicht (2009) sérlega áhugaverð.3
366 sigurjón árni eyjólfsson skírnir
2 Hildebrandt 2005: 71–89. Í kjölfar greinar Richards Bernstein (1990), „The Ris-
ing Hegemony of the Politically Correct“ í New York Times, 27. október 1990,
má segja að umræðan um pólitískan rétttrúnað hafi orðið almenn og ekki lengur
bundin við háskólasamfélagið.
3 Í mörgum þessara rita kemur fram að í umræðunni í Þýskalandi eigi fulltrúar póli-
tíska rétttrúnaðarins nokkuð undir högg að sækja. Hér verður einnig gerð sér
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 366