Skírnir - 01.09.2017, Page 143
407íslendingar á jótlandsheiðar?
myndun tanna og beina. Þessa gætti þegar um sumarið, en fénaður
hjarði þó flestur fram á haustið, fór jafnvel að hjarna við þegar dró
úr menguninni.
Íslendingar bjuggust nú til að þreyja erfiðan vetur. Heyfengur
var lítill vegna gróðurskemmda og lítillar sprettu á köldu sumri.5
En búfé hafði líka fækkað, og því sem illa var farið af gaddi var
ráðlegt að slátra hvort sem var. Fólk hafði þá kjötið af því til að bæta
sér upp hvað sumarmjólkin hafði verið lítil og vetrarbirgðir því
ónógar af smjöri og skyri. Kjötið varð þó vonum minna því að
sjúkar skepnurnar voru fjarska rýrar. Þegar kýr voru teknar á gjöf
kom fljótt í ljós að heyin voru eitruð, enda var þeirra aflað þegar
flúormengun var hvað mest um sumarið. Kýrnar þurftu tvöfalda
gjöf til að halda holdum og urðu brátt illa haldnar af gaddi. Snemm-
bærur, en mjólkin úr þeim var það nýmeti sem fólk treysti á yfir
vetrarmánuðina, geltust fljótlega upp, þær sem á annað borð lifðu
af burðinn.
Þegar vetur lagðist að með kulda og jarðbönnum þurfti líka að
taka sauðfé á gjöf, og reyndist heyið hvorki drýgra né hollara handa
því en kúnum. Smám saman varð féð of lasburða til að krafsa sig eftir
beit gegnum djúpa fönn og því örar gengu heyin til þurrðar. Þá var
farið að „skera af fóðrum“, þ.e. slátra fleiri skepnum. Enda veitti ekki
af kjötinu; þegar á góu var fólk fjölvíða farið að svelta hálfu hungri.
Svona var aðkoman þegar Levetzow og Magnús Stephensen
komust loks til Íslands 1784. Harðindin teygðust fram á vorið og æ
fleiri heimili þraut bæði hey og mat. Þá var ekki annað til ráða en éta
skepnurnar meðan eitthvað var eftir. Jafnvel hrossin; þó þótti
hrossakjöt ókristilegt ómeti sem margir lögðu sér ekki til munns
fremur en hunda eða ketti, og það þótt líf lægi við.6 Á sveltandi
skírnir
5 Samhengi hitafars og heyfengs hefur lengi verið rannsóknarefni Páls Bergþórs-
sonar sem síðan leiddi hann til víðtækari rannsókna og tölfræðilegrar tilgátusmíðar
um sögu tíðarfars og afleiðingar þess, síðast í greininni „Lögmál byrst — í tölum
talið“ (2003).
6 Þó átti að vera leyfilegt, samkvæmt úrskurði Kirkjustjórnarráðsins 1757, að neyta
hrossakjöts í neyð. Sjá nánar: Hrafnkell Lárusson 2003., „Fremur nýta til ljóss en
sitja í myrkrinu. Um upplýsingarviðhorf í tveimur greinum Magnúsar Ketils-
sonar“, Vefnir 2003 (http://hdl.handle.net/10802/715).
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 407