Skírnir - 01.09.2017, Page 146
viðráðanlega fáir og komust til þeirra landshluta þar sem bjargræði
var ekki af alltof skornum skammti.
Þegar neyðin svarf fastar að, þá reyndi á ójöfnuðinn. Betur stæð
heimili máttu ekki láta „éta sig út á húsganginn“ heldur urðu þau að
takmarka ágang hinna sveltandi. Húsráðendur, sem ekki treystu sér
til að horfa á fátæklinga svelta í hel í kringum sig, gátu um skamman
tíma líknað þeim sem að garði bar, eytt til þess matarbirgðum sínum
og síðan búfé, en hlutu þá sjálfir að flosna upp og bætast með hyski
sínu í raðir betlaranna.
Ef öll heimili hefðu verið álíka sett þegar hallæri bar að höndum,
þá hefðu þau öll liðið sama skortinn, öll lengt líf fólksins með því
að slátra skepnunum, og síðan staðið uppi öll ámóta bjargarlaus. En
nú voru heimilin misjafnlega sett, rík, bjargálna og niður í örsnauð.
Þeir fátækustu flosnuðu upp fyrst, og svo koll af kolli, jafnframt því
sem fólk leitaði brott úr þeim sveitum þar sem neyðin var sárust.
Þannig voru hinir bjargarlausu hvarvetna í minnihluta. Hinir réðu
ríkjum sem enn höfðu nokkuð til hnífs og skeiðar og gátu leyft sér
að varðveita nauðsynlegan bústofn óétinn, hvort sem hinir svelt-
andi lifðu eða dóu.
Þessu fór fram fyrsta ár Móðuharðindanna. En þegar annar vet-
urinn gekk í garð var allvíða svo komið, a.m.k. á Norður- og Aust-
urlandi, að þorri heimila hafði alls ónóga vetrarbjörg og ekki annað
til ráða en eyða sínum litla bústofni og leita svo á náðir nágrann-
anna. Meðan ómagar og umrenningar voru fáir gat fólk hrakið þá frá
sér en þegar margir flosnuðu upp á sama tíma var erfiðara fyrir ná-
grannana að neita. Það gerðist ekki endilega með neinum átökum
eða heift. Þeir sem eitthvað áttu eftir urðu bara of fáir til að geta
lengur litið á sig sem samfélagið og hina sem ógnun við það. Svelt-
andi fjöldinn var orðinn það eina samfélag sem þeir áttu kost á að
tilheyra, deila með því matarbirgðum sínum og að lokum skepn-
unum, uns allir stóðu uppi jafn allslausir.
Og hvað svo? Fyrir þá aumustu ekki annað en bíða endalok-
anna. Hinir ferðafærari reyndu að ná til annarra byggða þar sem
einhver björg kynni að vera eftir. Það valt þá á veðri og vega-
lengdum hvort fólkið varð úti eða náði byggð — og þá kannski
byggð sem þegar var komin í þrot og allir flúnir sem farið gátu. Ef
410 helgi skúli kjartansson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 410