Skírnir - 01.09.2017, Page 157
421íslendingar á jótlandsheiðar?
karlmenn. Síðan var byggðinni skipt í sóknir og ráðinn að hverri
þeirra þingaprestur, þ.e. prestur án prestseturs eins og algengt hafði
verið á Íslandi. Fyrstu árin greiddi konungur laun þeirra, og skyldu
þeir þá þjóna söfnuðunum ókeypis, en síðan tóku gildi venjulegar
danskar reglur um tíundargreiðslu og önnur gjöld til prests og
kirkju. Þá fengu prestarnir líka embættisbústað hver í sínu þorpi, í
húsakynnum sem losnuðu þegar íslenskar fjölskyldur fluttu í eigin
bæi úti á heiðinni.
Fjölmenning
Um nokkurt skeið voru Íslendingar þorri íbúa á Alheiðinni. Þeim
fjölgaði þó aldrei verulega umfram þau tvö þúsund sem þar settust
að í upphafi. Þegar fólk hafði parað sig saman í hjónabönd — upp-
haflegu nýbýlingarnir voru flestir einhleypir eða þá ekkjufólk —
og barneignir færðust í eðlilegt horf, þá vó það upp fólksfjölgunina
hve mjög yngra fólkið leitaði burt af heiðinni. Þjóðverjarnir reynd-
ust staðbundnari og tók brátt að fjölga í byggð þeirra á ný. Þá tóku
Danir sjálfir að leita sér bólfestu á heiðunum og kom hvort tveggja
til: þröngbýli í frjósamari sveitum og bætt tök á nýtingu heiðalands-
ins, m.a. með ræktun skjólbelta. Smám saman mynduðust danskar
sveitabyggðir umhverfis þýsku og íslensku nýlendurnar á Alheiði og
héldust þjóðernismörkin þá ekki hnífskörp til lengdar.
Það var rótgróið í íslenskri bændamenningu að freista gæfunnar
með því að flytjast búferlum, skipta um jarðnæði í von um betra
gengi á nýjum stað. Nú voru Íslendingarnir á Alheiði reyndar
orðnir sjálfseignarbændur, ólíkt leiguábúðinni sem þeir höfðu alist
upp við, og stuðlaði það að ábúðarfestu. Allmargir misstu þó jarð -
irnar þegar þeir höfðu safnað verslunarskuldum umfram það sem
þeir risu undir, og eins var hitt að jarðir komust í leiguábúð þegar
fyrstu eigendur féllu frá og erfingjar þeirra höfðu sest að annars
staðar. Þannig komst los á búsetuna, danskir bændur eignuðust eða
leigðu jarðir í Íslendingabyggðinni, en hins vegar urðu Íslendingar
djarfari, eftir því sem þeir kynntust landsháttum og vinnubrögðum
Jóta, að reyna fyrir sér sem húsmenn eða leiguliðar í nálægum sveit -
um. Af unga fólkinu giftist æ fleira út fyrir þjóðernis hópinn, flutt-
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 421