Skírnir - 01.09.2017, Page 159
423íslendingar á jótlandsheiðar?
markaði. Þar við bættist að nú var skólaskylda, lögboðin í Dan-
mörku frá 1814, að koma til framkvæmda, jafnvel í fátækustu
sveitum, og skólinn var auðvitað á dönsku. Það loddi við okkur,
líka á Jótlandsheiðum, að þykja mikið til um menntun og skóla-
göngu; þessi afstaða skilaði sér til barnanna sem þeim mun fremur
tileinkuðu sér tungumál barnaskólans og barnakennarans.13 Þó var
enn um sinn messað á íslensku í kirkjunum þremur (sem nú höfðu
verið endurbyggðar að dönskum hætti), en frá 1856 á dönsku og ís-
lensku á víxl til að koma til móts við vaxandi fjölda al-danskra fjöl-
skyldna í sóknunum; og frá 1870 var alveg hætt að messa á ís -
lensku14 því að nú voru engir eftir sem ekki skildu dönsku. Enn
var til eldra fólk sem var íslenskan tamari, en bækur voru löngu
hættar að fást nema á dönsku og engum datt lengur í hug að nota
íslensku á opinberum vettvangi. Þegar manntal var tekið í Dana-
veldi 1901 þótti óþarfi að spyrja Jóta eftir íslenskum uppruna eða
móðurmáli.
Það var löngu seinna sem við fórum að leggja rækt við gamla
málið, læra það á bók og jafnvel endurvekja það sem talmál. Sér-
staklega eftir að Evrópusambandið kom til og íslenskan varð að
styrkhæfu minnihlutamáli, sambærilegu við tvö tungumál Sorba og
þrenns konar frísnesku15 (að ekki sé nefnd endurreisn gömlu mál-
anna í heilum landshlutum eins og Wales og Bretagne). Þannig átti
ég kost á íslenskri móðurmálskennslu í grunnskóla (þó að heima
væri það mest langamma sem talaði við mig á gamla málinu) og ís-
lensku sem valgrein í menntaskóla áður en ég hóf háskólanám í nor-
rænum fræðum. Og þið verðið að sætta ykkur við að stauta ykkur
fram úr þessu á íslensku því ég skrifa það á vegum áætlunar um
skírnir
13 Þetta má með líkum hætti segja um Vestur-Íslendinga og enskuna, enda voru
þeir tiltölulega fljótir að taka upp ensku sem aðalmál. Sumir héldu svo í íslensk-
una jafnframt, eins og alkunnugt er, en þá fremur sem heimilismál („eldhúss-
mál“) eða mál eldri kynslóðar.
14 Ártölin eru tekin að láni úr sögu þýsku byggðarinnar á Alheiði, en þau tengjast
reyndar styrjöldum Dana við Þjóðverja 1848–50 og aftur 1864. Að halda áfram
í tæpa öld að messa á báðum málunum er ekki fjarri því sem varð hjá Vestur-Ís-
lendingum.
15 Dæmi gripin af handahófi. Um fleiri þjóðernis- og tungumálaminnihluta má vísa
á Þorleif Friðriksson (2016).
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 423