Skírnir - 01.09.2017, Page 186
um leið og ég missti takið á þessu nýkveikta lífi tók siðmenningin
mig hálstaki“ (69). Með öðrum orðum fjallar allur fyrsti hluti
Handbókar um hugarfar kúa um viðleitni manns til þess að
bregðast við áreiti jafnt að innan sem og utan. Tilvistarefinn hefur
borað sig mergdjúpt í hann á sama tíma og utanaðsteðjandi atburðir
leggjast þungt á hann. Gestur gerir allt hvað hann getur til að jafna
þessar andstæður. Í úrræðaleysi sínu klæðist hann rauðri skyrtu
sjálfum sér til áminningar í jólaboði foreldra sinna, því hann kann
ekkert betra ráð. „Ég var í rauðu skyrtunni, það var táknrænt fyrir
mig, rauði liturinn var mér stöðug áminning um að hverfa ekki inn
í sjálfan mig, burt frá Catherine og Söru, því ég vildi ekki hverfa og
hvers konar náttúra var það sem lét mann hverfa meðal þeirra sem
höfðu ræst mann út í þessa tilvist?“ (63). En eins og Gestur kemst
að — líkt og Michael Dorsey í kvikmyndinni Tootsie (1982) —
dugar víst ekki að klæða af sér erfiðleikana. Rauna-, lífs-, fjölskyldu-
, hugar-, tauga- og sálarstríð Gests heldur stigmagnandi áfram allan
fyrsta hluta þar til því lýkur með hruni persónulegrar heimsmyndar
hans.
Ég horfði á súldarrytjurnar slengja hölum sínum ofan í hraunbreiðuna og
fór að gráta. Horfði á hraunvíðernið og fór að hágráta svo Ladan rásaði á
veginum, ég réð ekki við neitt og mér fannst ég eitt augnablik horfa aftan á
sjálfan mig og sjá mig eins og manneskju sem var bara að reyna að vera til.
Ég fann til með þessum mislukkaða skapnaði hins góða vilja. Mér. Grét. Nú
er það komið fram sem heimurinn vill: Bera mig út, hafna mér, koma mér
fyrir kattarnef. Drepa. (118–119)
En þótt Gestur sé að drukkna í slori sjálfsvorkunnar og angistar
krafsar hann í bakkann. Handritið, hans eina haldreipi og iðja,
síðasta hálmstrá geðheilsunnar og réttlæting tilvistarinnar er hætt
komið. Taugaveiklunin er á yfirsnúningi og hann þarf að horfast í
augu við höfnun foreldra og vina, og þá staðreynd að kona og barn
eru farin. Viðskilnaður foreldra og barna markar skil í frásögninni
því atburðurinn skapar hliðstæðu við endalok fyrstu þriggja inn-
skotsbréfanna þar sem móðir Gests segir endanlega skilið við hann.
Svo virðist sem eina bjargráð Gests sé afneitun. Hann snýr baki við
heiminum og sökkvir sér í handritið.
450 kjartan már ómarsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 450