Skírnir - 01.09.2017, Síða 224
frosið fastar. Þannig er orðið ,,host“ þýtt sem ,,gestgjafi“ þegar
frásagnarefnið sýnir að átt er við húseiganda, útleigjanda, eða jafnvel
fundarboðanda. Fyrir ber ummæli sem þessi: ,,allir eru ólíkir“ og
,,enginn er eins“; þetta er alkunnugt orðalag í ensku en andkanna-
legt í íslensku. Núorðið eru menn ekki brennandi í andanum, fullir
brennandi áhuga eða eldheitir hugsjónamenn, heldur heyrist oft
sagt: ,,Hann brennur fyrir náttúruvernd.“ — Annars eðlis er sér-
fræðiorðið: ,,brotaforði“ (ekki hlutaforði, dregið af enskunni
,,fractional“). Fleiri dæmi má taka.
Skemmtilegt og skýrt dæmi um hvarf gegnsæis er að menn ,,eiga
von á“ hörmungum. Og ekki þykir athugavert við þessa yfirlýsingu:
,,Ísland er friðsöm þjóð“. Land er þjóð; — hér er notkun orðanna
alveg eins og tíðkast á ensku. Eiginleg merking orðsins skiptir ekki
lengur máli, heldur af-ályktuð (: abstract) samhengis-merking.
Gegnsæi skiptir engu máli lengur, hefur gleymst. Orðið ,,vara,
vörur“ hefur tekið á sig allar meðfylgjandi hliðarmerkingar í umtaki
enska orðsins ,,product“. Grunnmerkingin á enskunni er ,,það sem
leitt er fram“, framleitt, unnið og boðið til kaups. En hingað til
hefur þjónusta, hönnun eða hugvit ekki verið ,,vara“ á íslensku.
Mörg þessi dæmi virðast sýna hraða eða fljótræði, vanhugsun og
ónákvæmni. Vitaskuld verður slíkt í flýtinum, en þegar það er
margendurtekið í fjölmiðlum viku eftir viku hlýtur eitthvað annað
að ráða. Og þegar þessi íslensku dæmi skírskota beint til áþekkra
dæma í enskunni virðast áhrifin skýr.
Merkingarlegt gegnsæi á sér auðvitað augljósar takmarkanir en
hnýtir mörg orð saman á athyglisverðum merkingartengslum,
sögulegum kveikingum, hliðstæðum og samstæðum. Íslenskan nýtir
í þessari frjósemi sinni orðstofna, hljóðbreytingar, viðskeyti, samsetn-
ingar og orðasambönd með lifandi og þjálum hætti. Á íslensku skynja
menn þetta þótt stundum sé óljóst. Hér eru tekin tvö dæmi.
– að taka – verktaki – leigutaki – átak – að hafa tök á einhverju – ná taki á
– tæki – tækni – raftækni – véltækni – tæknifræði – tækniundur –
tæknilegur – fá tak í baki – aftaka – hann er vel tækur – tiltökumál – tiltæki
– tökubarn – taka fram hjá – það tekur því ekki – aftakaveður – átök – ítak
– inntak – umtak – tekinn í andliti – tiltekt – fyrirtekt – handtaka – takfastur
– tæknimaður – átakanlegur – máltækni – yfirtak – fyrirtak …
488 jón sigurðsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 488