Skírnir - 01.09.2017, Síða 226
System for Mobile Communications“. En gamla orðið ,,gems“
merkir einmitt: háð, spé, gabb, glens… Hljóðlíkingin bregður hér
skemmtilegu ljósi yfir.
Þrátt fyrir slík dæmi, sem vissulega eru fleiri fyrir hendi, virðist
sem áhugi á nýyrðum og nýyrðasmið sé engan veginn sá sem lengi
var meðal Íslendinga. Ef hæfa er í því sem hér er ályktað eru nokkur
grundvallareinkenni íslenskunnar á förum um þessar mundir:
Merkingarlegt gegnsæi og nýmyndanir orða með hljóðbreytingum
og samsetningum á þessum grundvelli.
VIII
Á 19. öld tóku Íslendingar stranga hreintungustefnu upp. Sams
konar viðhorfum var fylgt víða í Evrópu. Frægar eru hreintungu-
stefna (,,kaþarevúsa“, kaqareuousa) Grikkja og hreintungustefna
(,,casticismo linguístico“) Spánverja. Hreintungustefna Íslendinga,
sem Fjölnismenn boðuðu, var reyndar ákaflega róttæk og studdist
við þau einkenni íslenskunnar sem áður eru nefnd: gegnsæi, sam-
setningar og frjósemi orða með hljóðbreytingum og endingum. Hér
var hreintungustefnu framfylgt kynslóðum saman langt fram eftir
liðinni öld, stundum af óvægnu ofstæki. Íslendingar virðast hafa
horfið frá þessari stefnu á síðustu árum. Það virðist vera fram-
vinda sem gerist eins og af sjálfri sér eða við sinnuleysi, í heimi
alþjóðlegrar samþættingar.
Öðrum þræði styrkist íslenskan og eflist við þessar viðbætur
erlendra orða og orðstofna, ekki síður en önnur norræn mál hafa
áður gert. Íslendingar taka um þessar mundir fjöldamarga alþjóð-
lega orðstofna inn í daglegt mál sitt. Þannig eykst orðaforðinn
verulega með samsvarandi auðgun merkingar- og blæbrigða. Engin
ástæða er til að gera lítið úr þessum ávinningi við innbyrðingu
erlendra orðstofna, þótt viðurkennt sé að önnur sjónarmið geta líka
skipt máli. Þjóðin virðist líka á sama tíma vera að einfalda nokkrar
flækjur í málinu, beygingar og endingar orða, og innri tengsl í orða-
samböndum og óregluleg orð. Slíkar ,,flækjur“ hafa reyndar lengi
þvælst fyrir sumum. Fyrir ber að heyrist í fjölmiðli orðið ,,hengur“
í staðinn fyrir ,,hangir“. Beygingar sumra orða falla saman, svo sem
490 jón sigurðsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 490