Skírnir - 01.09.2017, Page 227
491íslenska eða ís-enska
þekkt er af eignarfallinu ,,ganga“ og ,,gangna“ er blandað er saman
daglega í fjölmiðlum. Og Íslendingar fella merkingarsvið og notkun
fjöldamargra orða og orðasambanda alveg að tilteknum enskum
orðum og orðasamböndum þannig að þýðingar virðast geta orðið
allt að því sjálfvirkar.
Tímabili hreintungustefnu og málvöndunar virðist lokið. Svipað
má segja um vandvirkni í tungutaki. Þetta má finna greinilega með
því að fylgjast nokkra daga með útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og
öðrum almennum miðlum. Greinilegt er að menn eru hættir að
vanda sig sérstaklega, leita að fjölbreytni í orðalagi eða eltast við
sérstök einkenni í merkingarumfangi og blæbrigðum íslenskra orða
og orðasambanda. Svipað verður sagt um framsögn og upplestur.
Allt er þetta fráhvarf frá hefðbundnu íslensku tungutaki, viður-
kenndum fyrri háttum og gamalgrónum þjóðarmetnaði Íslendinga.
En því verður ekki haldið fram að sálarheill sé undir ,,hreinum“
orðstofnum komin. Og rétt er að minnast orða skáldsins: ,,L’art
n’est jamais á coté des puristes“: Snilld og hreinsunaröfgar eiga ekki
samleið. Og margir vilja ástunda hreintungustefnu sjálfir án þess að
gera kröfu um slíkt til allra annarra.
Þessar víðtæku breytingar marka tímamót. En lifandi tungumál
breytast stöðugt. Fánýtt er að amast við því. Viðbótarafurð þessarar
þróunar hérlendis verður vitaskuld líka eins og erlendis að stétt-
skipting eykst. Reynsla sem norrænar frændþjóðir hafa öðlast af
sömu þróun á síðustu áratugum sýnir hvernig þetta gerist og hvað
hlýst af því í eigin þjóðmenningu. Það verða greinilega engar
stórkostlegar hörmungar eða hávaðabyltur, enda er það sem víkur
hógværara og hljóðlátara en hitt sem við tekur. Auðvitað verður að
muna að allt breytist.
IX
Fyrir kemur að sagt er að íslenskan sé allt of flókin, þung og erfið.
Margir Íslendingar segja þetta og dæsa við. Og þessi skoðun er
reyndar ekki ný af nálinni hér á landi. Þá fylgir með að það sé óþarfa
fyrirhöfn að burðast með þetta móðurmál, enskan sé miklu léttari
og auðveldari og betur fallin til allra nota nú á dögum. Svo er
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 491