Skírnir - 01.09.2017, Qupperneq 231
495íslenska eða ís-enska
skiptir miklu að enska og íslenska eru skyldar og margar sam-
svaranir og skyldir orðstofnar að uppruna í báðum málum, og löng
saga mikilla samskipta að baki, bæði við nágrannana í landsuðri og
útsuðri. Það er því ekki kyn að það fljóti á milli tungumálanna í
heimi alhliða samþættingar viðskipta og menningarsamskipta, ferða-
mennsku, tölvutækni, alþjóðlegra fjölmiðla, kvikmynda og fljótra
flugferða. Við því er lítið að segja eða gera. Menningarstraumar og
hvers konar gagnkvæm áhrif efla yfirleitt alla mennsku. Allt þetta er
fámennri þjóð mikilvægt. Og það er alls ekki allt ,,óæskilegt“ eða
,,skaðlegt“ — og mælistikur um slíkt mat eru hæpnar og iðulega
byggðar á geðþótta. Sagan af öllu stritinu við þágufallssýkina kennir
einnig að hvað sem stjórnvöld og stofnanir reyna, þá er það
sammæli almennings sem ræður.
Önnur ástæða kann að vera sú að viðhöfn í tungutaki víkur.
Metnaður til að vanda sig og hugsa sig um hverfur eða kemst ekki
að í flýtinum. Smám saman fara menn að leggja allt að jöfnu.
Uppeldisstofnanir, skólar, fjölmiðlar, aðrar menningarstofnanir,
margir tónlistarmenn, sumir rithöfundar og vísindamenn, stjórn-
málamenn og leiðtogar í athafnalífi virðast ekki hafa tíma eða
ráðrúm til að fást um þetta lengur. Lesmálshöfundar útvarps og
sjónvarps, t.d. á fréttastofum, gefa þessu ekki gaum lengur. Þulir
kæra sig kollótta. Á talmiðlunum hefur orðið alger stefnubreyting
og horfið frá flestum fyrri viðmiðum og kröfum í þessu efni. Með
frændþjóðum okkar hefur allt þetta áður gerst og orðið alsiða og
þykir ekki tiltökumál lengur þar. En mönnum má ekki gleymast að
málið og skilaboðin fylgjast að. Tungutakið kemur upp um mann-
inn, afhjúpar hann og sýnir þegar svo ber undir þoku, hugsunarleti,
ónákvæmni, fljótræði, lágkúru, óhreinindi, þjóðleysi, metnaðarleysi
… — Í hugsun og máli hafa vandvirkni og hreinlæti svipað gildi og
vægi sem á öðrum sviðum.
Hér framar eru nokkur orð um torræðni og auðveldni tungu-
mála. Um það þyrfti að fara fleiri orðum og rökum en verður ekki
gert að sinni. Það er misskilningur að hagræði eða sparnaður verði
að því að fella íslenskuna niður en taka upp afbrigði ensku heims-
tungunnar í daglegu lífi íslensku þjóðarinnar. Slík breyting getur
þó auðvitað gengið yfir á tveimur til þremur kynslóðum og Írar
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 495