Skírnir - 01.09.2017, Page 234
íslenskuna um þessar mundir. En hér er fyrst og fremst reynt að
vekja athygli á stöðu og horfum. Hér er ekki boðuð nein ein
samfelld niðurstaða, úrræði eða stefna um öll einstök atriði, en
varað við ofstæki og rembu.
En þessar umbreytingar sem hér er fjallað um, ef þær ganga
fram, draga fleiri dilka á eftir sér. Íslenska samfélagið verður þá
síðan sjálfs sín vegna að leggjast í mikla leit að nýrri vitundar-
fótfestu, að vitrænni undirstöðu mannfélags á þessum slóðum, að
vitund og sammæli um sjálft sig — og að trú á sjálft sig og að eflingu
eigin sjálfsmyndar. Það er augljóst að ekki dugir í þessari umbreyt-
ingu að höfða til sögu þjóðarinnar, uppruna og lífsbaráttu á liðnum
tíma, fornrita, annarra bókmennta, söngva eða annars þjóðararfs.
En tengsl og sameðli þjóðtungu og þjóðmenningar Íslendinga eru
augljós. Þjóðtungan er grundvöllur í vitund þessarar þjóðar, akkeri
og áttaviti, ásamt trúarlegum og siðrænum grunnviðhorfum. Ef
áttirnar týnast þarf að finna leiðir að nýju. Finna þarf þá og móta
nýjar undirstöður og forsendur — á svo skömmum tíma sem verða
má.
Hér er alls ekki kallað eftir þjóðernisofstæki, einangrunarstefnu
eða þjóðrembu. Engin vörn, efling eða stoð er að þeim — nema
síður sé. Rómverjar sögðu forðum: Error communis ius facit : Villa
flestra verður lög. Þetta á við um margar breytingar í rás sögunnar
og líklega um flestar málbreytingar. Það tjóir lítt að klifa á hneyksl-
un, yfirlæti, boðum eða bönnum. Gamlar úrlausnir hafa sinn tíma
og ekki víst að þær hæfi nýjum aðstæðum. Reynsla sýnir til dæmis
að beinar fyrirskipanir kennara í skólum duga skammt einar sér.
Almennt eru breytingar svo róttækar um þessar mundir á flestum
sviðum mannlífsins að ekki er að undra að þeirra gæti í tungu-
málum.
Í þessu máli eru valkostir og enn er svigrúm til frumkvæðis ef
vilji er fyrir hendi. Við getum tekið örlögin í okkar hendur í þessum
efnum, sveigt þau og mótað. Við getum látið allt reka á reiðanum.
Við getum gefið erlendum skemmtikröftum og auglýsendum allt
vald um daglegt mál og hugsun þjóðarinnar. Við getum ástundað
vandvirkni og hreinlæti í máli og hugsun og ætlast til slíks af fjöl-
miðlafólki og starfsmönnum skóla og annarra uppeldisstofnana. Og
498 jón sigurðsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 498